Samþykkt Alþjóðasambands lækna um notkun gagnagrunna á heilbrigðissviði

Þriðjudaginn 12. nóvember 2002, kl. 13:36:22 (1287)

2002-11-12 13:36:22# 128. lþ. 27.91 fundur 234#B samþykkt Alþjóðasambands lækna um notkun gagnagrunna á heilbrigðissviði# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 128. lþ.

[13:36]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Mér finnst viðbrögð hæstv. iðn.- og viðskrh., setts heilbrrh., sérkennileg. Menn tóku þetta mál upp hér og ég held að enginn geri athugasemdir við að þetta eigi erindi við Alþingi og störf þingsins annað eins og lagt var í það að setja þessi lög á sínum tíma og tekist var á um einmitt þetta grundvallaratriði þeirra, hvort þessi frágangur mála stæðist alþjóðlegar viðurkenndar siðareglur.

Ég heyrði hér engin gífuryrði, engin stóryrði og ég varð ekki var við að það væri sérstök fljótfærni að taka þetta hér upp og óska eftir því að nefndir þingsins færu ofan í saumana á málinu. En í stuttu og geðvonskulegu svari sínu raðaði hæstv. ráðherra saman einkunnagjöf af þessu tagi, talaði um uppákomu, stóryrði, fljótfærni og gífuryrði. Þetta er nokkuð vel að verki staðið í ekki meira en tveggja mínútna pistli. (Gripið fram í.)

Ég tel að full ástæða sé til, virðulegur forseti, að fara yfir þetta mál í raun og veru af tveimur ástæðum: Annars vegar vegna þess sem hér er tekið sérstaklega upp. Það verður auðvitað að eyða öllum vafa um hvort lögin standast alþjóðlega viðurkenndar siðareglur, skárra væri það nú. En það er líka, herra forseti, ástæða til að fara yfir stöðu málsins hvað varðar meinta uppbyggingu miðlægs gagnagrunns á heilbrigðissviði, m.a. vegna þess að ég hef orðið var við að fjölmargar stofnanir hafa talið sig vera komnar með samninga á hendur og reikna með því að fá til þess fjármuni að standa straum af þeim kostnaði sem á þeim lenti við öflun upplýsinga en síðan berast engar greiðslur, og menn hafa jafnvel lagt talsvert á sig til að undirbúa sig til að taka þátt í þessu og síðan er málið einhvers staðar í þoku og ekkert bólar á neinum efndum eða neinum framkvæmdum. Það er auðvitað óþolandi staða einnig gagnvart heilbrigðiskerfinu og heilbrigðisstofnunum í landinu þannig að hvernig sem á málið er litið, herra forseti, þá er ærin ástæða til þess að Alþingi og ríkisstjórn fari yfir stöðu þessa máls.