Verndun hafs og stranda

Þriðjudaginn 12. nóvember 2002, kl. 14:55:00 (1305)

2002-11-12 14:55:00# 128. lþ. 27.6 fundur 240. mál: #A verndun hafs og stranda# (heildarlög) frv., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 128. lþ.

[14:55]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. umhvrh. minntist á heimsókn sína til Sellafield fyrir skömmu. Hún sagðist hafa skoðað þá stöð. Ég er ánægður með að hæstv. ráðherra skuli fylgjast með því sem er að gerast í Sellafield. Því hefur verið mótmælt að þaðan er losað teknesíum-99, efni sem hefur yfir 200 þús. ára helmingunartíma. Það er verulega mikil hætta á að ef þetta efni nær að safnast upp í íslenskri náttúru geti orðið mjög varanlegur skaði af því.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvernig mælingum er háttað og hvar þær mælingar eiga sér stað í dag. Við höfum óttast að þetta efni berist með straumum til landsins. Það þynnist út eftir því sem lengra dregur frá vesturströnd Bretlands en er eigi að síður talsvert magn sem ástæða er til að hafa áhyggjur af.

Það kemur verulega á óvart að bretar skuli draga að hætta þessari losun. Ég vissi ekki betur en umhverfisráðherra Breta, Michael Meacher, hefði fullan hug á að hætta losun teknesíum-99 í hafið. Hann lofaði því í Árósum fyrir fjórum árum. Hann ætlaði alla vega að beita sér fyrir því. Það kom reyndar í ljós að hann réð því ekki einn. Þó að menn hafi hug á að gera góða hluti þá er ekki alltaf víst að það standist. Ég hvet hæstv. ráðherra eindregið til að beita sér af öllu afli í að koma í veg fyrir losun á þessu hættulega efni.