Meðhöndlun úrgangs

Þriðjudaginn 12. nóvember 2002, kl. 15:07:21 (1310)

2002-11-12 15:07:21# 128. lþ. 27.7 fundur 338. mál: #A meðhöndlun úrgangs# (EES-reglur) frv., ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 128. lþ.

[15:07]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Herra forseti. Eins og kom fram í máli hæstv. umhvrh. var frv. sama efnis lagt fram á síðasta þingi en hlaut ekki afgreiðslu. Hér er um mjög mikilvægt mál að ræða og ég treysti því að í hv. umhvn. verði farið ítarlega ofan í saumana á þessu frv. og það skoðað frá öllum hliðum.

Eins og fram kom í máli hæstv. ráðherra byggir frv. á tilskipun frá Evrópusambandinu frá 1999 nr. 31, sem stundum hefur verið nefnd ,,urðunartilskipunin``. Það sem mig langar helst til að inna hæstv. ráðherra eftir er kannski það sem ég finn ekki í frv. eða er ekki vikið að nema lauslega, því ef ég man rétt er í þessari tilskipun ESB kveðið á um magntölur, þ.e. samkvæmt því markmiði að minnka í áföngum á næstu 15--19 árum magn lífræns úrgangs, hvaðan sem hann kemur. Ég held að það eigi að reyna að minnka magn lífræns úrgangs um a.m.k. 50% á næstu 15 árum. Hæstv. umhvrh. getur þá staðfest það eða leiðrétt. Þetta er auðvitað talsvert magn og mjög verðugt markmið því það hlýtur náttúrlega að vera markmið okkar að urðun úrgangs eða brennsla sorps séu afgangslausnir við meðhöndlun úrgangs en ekki aðallausnir og aðallausnirnar hljóti því að felast í því að minnka magn úrgangs, hvort sem hann er lífrænn eða ólífrænn, og reyna að koma því þannig fyrir að eyðsla og sóun minnki í samfélaginu í samræmi við hugmyndir okkar um sjálfbæra þróun umhverfisins. Ég mundi því mjög gjarnan vilja heyra aðeins í hæstv. umhvrh. um nákvæmlega þetta, þ.e. hvaða viðmið eru í tilskipuninni því ég er ekki með hana hér við höndina og man þetta hreinlega ekki.

Í framhaldi af því vil ég benda á að í umsögn fjmrn. um frv. segir, með leyfi hæstv. forseta: ,,... kveðið er á um að innan tiltekins tíma skuli aðildarríkin setja fram áætlun sem miði að því að minnka magn þess lífræna úrgangs sem berst til urðunarstaða þannig að með aukinni endurvinnslu verði tryggð tiltekin minnkun þess lífræna húsasorps sem berst til urðunarstaða. Ekki er ólíklegt að hér liggi meginkostnaðaráhrif frumvarpsins og gætu sveitarfélög þurft að leggja í umtalsverðan kostnað til að minnka magn lífræns heimilisúrgangs sem fer til urðunar. Ekki er unnt að spá fyrir um hvaða leiðir hin ýmsu sveitarfélög muni fara til að ná þeim markmiðum og eru kostnaðaráhrif m.a. af þeim sökum óljós.``

Það liggur sem sagt fyrir í mati fjmrn., hæstv. forseti, að kostnaðaráhrif þessa frv. eru ekki mest fyrir ríkið, heldur fyrir sveitarfélögin.

Ég vil einnig í framhaldi af þessu spyrja hæstv. umhvrh.: Hvernig hyggst hún standa fyrir því eða beina því til sveitarfélaganna að gera áætlanir í samræmi við frumvarpið, sem væntanlega verður að lögum hér í vetur, í samræmi við efni tilskipunar Evrópusambandsins? Og hvernig hyggst ríkisvaldið bæði aðstoða og leiðbeina sveitarfélögunum í þessu mjög mikilvæga máli? Því eins og gefur að skilja er þetta mjög kostnaðarsamt af því að það felur í raun í sér að meðhöndlun sorps eða húsaúrgangs á Íslandi þarf að breytast stórkostlega. Það þarf að breyta því í hverju einasta sveitarfélagi og á hverju einasta heimili á landinu hvernig við flokkum sorpið okkar, í lífrænt og ólífrænt, hvernig við getum komið því frá okkur og hvernig það á þá að vera neytendum, bæði þægilegt og kostnaðarlítið, því auðvitað er það þannig að við græðum öll að lokum. En það breytir því ekki að kerfisbreytingin fyrir sveitarfélögin, á meðan hún gengur yfir, getur verið býsna kostnaðarsöm, ekki síst vegna þess að það þarf auðvitað að koma upp miklu fleiri stöðvum þar sem fólk getur losað úrganginn, húsasorpið sitt, og líka vegna þess að fræðslan sem fylgir því að breyta hegðun almennings með þessum hætti hlýtur að vera kostnaðarsöm af því að hún þarf að vera mjög skýr, hún þarf að vera mjög almenn og hún þarf að ná til allra, annars náum við ekki árangri í samræmi við markmið þessa frv. og markmið tilskipunarinnar sem við höfum meðtekið og undirgengist.

Hér er kannski ekki alveg allt sem sýnist, hæstv. forseti. Ég vil taka það skýrt fram að mér finnst markmið frv. góð og ég sé í fljótu bragði ekkert efnislega að því sem hér er sett fram. Hins vegar staldra ég við þann þátt málsins, þeirra aðgerða sem bæði ríki og ekki síður sveitarfélög þurfa að grípa til til þess að geta uppfyllt þessar kröfur og komið þeim í framkvæmd, ég tala nú ekki um innan þess tímaramma sem við í raun höfum, sem eru þá 7--14 ár sýnist mér svona um það bil, ef ég hef lesið þetta rétt, hæstv. forseti.

Það er helst þetta sem ég vildi biðja hæstv. umhvrh. að koma inn á hér við 1. umr. frv. Og síðan munum við þingmenn í hv. umhvn. að sjálfsögðu taka þetta mál til mjög vandlegrar skoðunar.