Meðhöndlun úrgangs

Þriðjudaginn 12. nóvember 2002, kl. 15:13:58 (1311)

2002-11-12 15:13:58# 128. lþ. 27.7 fundur 338. mál: #A meðhöndlun úrgangs# (EES-reglur) frv., ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 128. lþ.

[15:13]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Hér er lagt til frv. til laga um meðhöndlun úrgangs sem að mínu mati er hið besta mál. Það er kominn tími til að við förum að vinna markvisst að þeim málaflokki. Það er öllum ljóst að til þess að geta staðið vel að flokkun og urðun og eyðslu á sorpi, sem er kostnaðarsöm aðgerð, þá þurfum við að ná inn fjármagni, þ.e. til að standa undir þeirri úrvinnslu sem við gerum kröfu til í dag að sé með mismunandi hætti frá urðun og til endurvinnslu og endurnýtingar. Því fagna ég því að þetta frv. skuli vera hér fram lagt.

[15:15]

En ég vil taka undir orð hv. þm. Þórunnar Sveinbjarnardóttur því að það sem stendur út af eftir að hafa farið yfir frv. er einmitt það hvernig úrvinnslusjóður muni vinna með sveitarfélögunum, því langmesti kostnaðurinn kemur yfir á sveitarfélögin sem sjá um förgun sorps og eins eru flokkunarstöðvarnar á þeirra vegum, á ábyrgð þeirra. Hvernig mun úrvinnslusjóðurinn standa við bakið á sveitarfélögunum? Hvernig verður staðið að því að fara í enn frekari hvatningu, fræðslu til almennings um flokkunina? Hvernig verður staðið að því að hvetja sveitarfélögin til þess að standa að enn frekari flokkun en gert er í dag? Hvernig verður staðið að því að auðvelda sveitarfélögunum að vinna svo úr þeim efnum sem flokkuð eru? Því það er ekki nóg að hafa göfug markmið ef ekki er síðan hægt að losna við sorpið eða vörurnar sem flokkaðar eru, eða ef kostnaðurinn af flutningi til endurvinnslustöðva er orðinn svo hár að sveitarfélögin veigra sér við því að standa fyrir flokkun, eins og t.d. flokkun á pappír. Hér er komið inn á skilagjald á pappír. Mig langar til að heyra frá hæstv. ráðherra hvernig staðið verður að því að styðja sveitarfélögin, bæði með fræðslu og hvatningu og hvernig greiðslan kemur svo til þeirra?

Við erum nokkuð á veg komin með að flokka, sérstaklega þær vörur sem endurgjald er greitt fyrir. En mikið vantar upp á þá fræðslu til almennings að við sem neytendur getum haft mikil áhrif á það hversu mikið sorp fellur til og það vantar að mínu mati mikla hvatningu til fjölskyldna í landinu að velja stærri umbúðir, að versla hagkvæmt inn eins og sagt er, að velja stærri umbúðir frekar en minni, að hafa áhrif á það að verslanir séu ekki að nota óþarfa umbúðir við afgreiðslu á vörum sínum eins og kjöti og fiski, að reyna að minnka strax í upphafi það umbúðamagn sem fellur til.

Eins finnst mér mikilvægt að þegar núna verður unnið af krafti og endurskipulagningu á þessu máli að horft verði til þess að öll endurvinnsla og nýting verði sem næst móttökustöðvunum þannig að við getum komist hjá miklum flutningi sem oft er og að þeir frumkvöðlar, sem margir eru til, sem hafa uppi hugmyndir um hvernig megi vinna úr því efni sem fellur til, eins og plastefni utan af heyböggum, heyrúllum, þeir fái stuðning til að þróa vörur sínar áfram.

Þegar við lítum á heimilissorpið þá fellur þar til mikið af lífrænum úrgangi. Mig langar til að biðja hæstv. ráðherra að greina frá því hvaða sýn hún hafi til þess að minnka enn frekar urðun á lífrænu heimilissorpi og hvaða stuðning sveitarfélögin geti þá fengið til þess að fara út í flokkun á lífrænum úrgangi og koma þeim úrgangi yfir í moltugerð.

Eins óska ég eftir því að hér komi fram hugmyndir um hvernig við eigum að fara með lífrænan úrgang frá landbúnaði, verksmiðjubúskap, eða svo miklum landbúnaði að það falli til það mikið af lífrænum efnum sem ekki nýtast svo til landgræðslu á búunum sjálfum. Má þá líta til hænsnabúa, kjúklingabúa, svínabúa og fleiri, þar sem mikill úrgangur fellur til og búin geta ekki nýtt þann úrgang til förgunar á eigin landsvæði. Þarna stendur m.a. hnífurinn í kúnni með að koma þeim lífræna úrgangi í landgræðslu, það eru uppi deilur uppi um það hver eigi að greiða, hvar kostnaðurinn eigi að falla. Þetta eru verðmæti en einhvern veginn þarf að koma þessum lífræna úrgangi til förgunar. Hvernig sér hæstv. ráðherra að því verði fyrir komið inn í framtíðina?

Herra forseti. Þetta voru hugrenningar varðandi frv. sem ég fagna að skuli vera fram komið. Þetta er rétt spor. Og ég efast ekki um að hv. umhvn. fjalli ítarlega um málið og skoði það til hlítar.