Meðhöndlun úrgangs

Þriðjudaginn 12. nóvember 2002, kl. 15:21:23 (1312)

2002-11-12 15:21:23# 128. lþ. 27.7 fundur 338. mál: #A meðhöndlun úrgangs# (EES-reglur) frv., umhvrh.
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 128. lþ.

[15:21]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þær umræður sem hér hafa orðið um frv. Eins og fram hefur komið er þetta gott mál, það er til bóta og það er til framfara o.s.frv. þannig að ég vænti þess að málið verði skoðað áfram með svona jákvæðum hætti í umhvn.

Hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir ræddi nokkuð um kostnað sveitarfélaga af frv. Það er rétt sem kom fram í máli hennar að í kostnaðarumsögninni kemur fram að erfitt er að kostnaðarmeta það. Talsverður kostnaður felst í því að minnka lífræna heimilisúrganginn og erfitt er að reikna þann kostnað út vegna þess að við vitum ekki núna hvernig hvert einstakt sveitarfélag ætlar að taka á því máli. Þeim er það eiginlega í sjálfsvald sett hvernig þau vilja gera það.

Nú þegar eru ýmis sveitarfélög að gera mjög góða hluti á þessum vettvangi sem hafa ekki kostað mikla peninga. Ég get tekið sem dæmi Skaftárhrepp, en þar er boðið upp á farveg fyrir nánast allt lífrænt heimilissorp. Sveitarfélagið styrkti íbúana til kaupa á mismunandi tunnum inn í eldhússkápana til að flokka heimilissorpið og hefur líka styrkt þá til moltugerðar. Þannig munu sveitarfélögin velja sér leiðir til að uppfylla ákvæði þessa frv. en það er erfitt að kostnaðarmeta það vegna þess að leiðirnar eru svo misjafnar.

Samband íslenskra sveitarfélaga hefur í auknum mæli viljað, og það er eðlileg krafa, að framkvæmdarvaldið mundi kostnaðarmeta áhrif af lagafrv. áður en þau eru flutt inn í þingið, og það er auðvitað mjög eðlilegt. En í tilvikum eins og því sem við erum að ræða nú er mjög erfitt að kostnaðarmeta. Það hefur ekki verið unnt að setja einhverja ákveðna tölu á kostnaðinn af þessu.

Nú er það þannig samkvæmt frv. að taka á gjald, raunkostnað fyrir förgun á úrgangi og heimilt er að taka gjald fyrir meðhöndlun úrgangs, en meðhöndlun úrgangs er miklu umfangsmeira verkefni heldur en bara förgunin. Þannig er það skylda að innheimta fyrir förgunina en heimilt að innheimta fyrir meðhöndlunina. Sveitarfélögin hafa beitt þessu á mjög misjafnan hátt eftir því um hvaða sveitarfélag er að ræða en langflest þeirra hafa ekki tekið neitt í líkingu við raunkostnað. Þannig hefur ekki verið tekið það gjald sem förgun og meðhöndlun úrgangs þarf að vera til að það standi undir sér, heldur hefur þetta verið tekið úr útsvarinu líka. Þetta hefur ekki verið gert t.d. í Noregi. Þar hafa sveitarfélögin innheimt raunkostnað og þeim ber skylda til að innheimta raunkostnað fyrir þessu öllu saman. En við höfum ekki stigið það skref hér.

Hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir spurði líka: Hvernig á nú að aðstoða sveitarfélögin við þetta? Það er ljóst að þetta verður verkefni sveitarfélaganna, en Umhverfisstofnun mun samkvæmt 4. gr. gera áætlun, landsáætlun, um hvernig eigi að minnka sorpið fyrir landið allt og síðan skal sveitarstjórn semja og staðfesta áætlun sem gildir fyrir viðkomandi svæði og skal sú áætlun byggjast á markmiðum landsáætlunar. Sveitarfélögin geta einnig tekið sig saman og gert áætlanir fyrir stærri svæði.

Þessar áætlanir þurfa auðvitað að uppfylla það markmið að við náum að uppfylla tilskipunina, þ.e. að við náum tímasettum/tölusettum markmiðum, og hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir spurði einmitt um það hvort það væri ekki tímasett/tölusett markmið. Það er rétt. Samkvæmt 5. gr. tilskipunarinnar kemur fram að á ákveðnum degi eða ákveðnu tímabili skal lífrænt húsasorp sem berst til urðunarstaða hafa minnkað niður í 75% af heildarmagni þess lífræna húsasorps sem féll til árið 1995, eða á því síðasta ári fyrir 1995, sem stöðluð gögn frá hagstofu Evrópubandalaganna liggja fyrir um. Á næsta tímabili þar á eftir þá á lífræna húsasorpið að hafa minnkað niður í 50% af heildarmagninu og svo aftur á síðasta tímabilinu að hafa minnkað niður í 35% af heildarmagni. Þetta er því þrepaskipt. Menn eiga að ná ákveðnum markmiðum í að minnka urðun á lífrænu húsasorpi.

Hv. þm. Þuríður Backman kom einnig inn á það hér að neytendur gætu auðvitað haft veruleg áhrif á það hvað húsasorpið er mikið. Við höfðum gert áætlanir á árum áður, eða fyrirrennari minn, um að við ættum að setja okkur þau markmið að sorpmagnið mundi ekki aukast heldur minnka ef eitthvað væri, en það hefur því miður ekki gengið eftir. Og núna er sorpmagn að aukast ár frá ári. Það er afleiðing af þeirri neyslu sem á sér stað í samfélaginu.

Þó eru ákveðin verkefni í gangi sem vinna gegn því að menn hugsi ekkert út í það að minnka sorpið sitt. Ég vil nefna sérstaklega verkefnið ,,Vistvernd í verki`` sem Landvernd hefur staðið að. Það er mjög áhugavert verkefni sem fjölmargar fjölskyldur hafa tekið þátt í sem lýtur m.a. að því að menn setja sér mjög háleit markmið heima fyrir gagnvart því að minnka sorpmagn sem frá þeim kemur, bæði með því að fara út í moltugerð og með því að skilja eftir jafnvel umbúðapakkningar í versluninni o.s.frv. til þess að þrýsta á framleiðendur að vera ekki að selja vörur í óþarfa umbúðum.

Það er reyndar annað mál sem kemur hér til umræðu næst á eftir þessu máli, annað frv. um úrvinnslugjald, sem einmitt verður hagrænn hvati fyrir fyrirtæki til að vera ekki að senda óþarfa pakkningar, umbúðir, með vörunni sem selja á á markaði.

Varðandi það sem einnig kom fram í máli hv. þm. Þuríðar Backman um lífrænan úrgang frá verksmiðjubúum, þá er það alveg rétt að það er auðlind sem við munum örugglega líta öðruvísi á í framtíðinni heldur en nú er gert. Þetta hefur verið vandamál hingað til hvað eigi að gera við slíka auðlind. En þó eru ýmsir aðilar að fikra sig áfram með það að nýta þá auðlind. Ég hef t.d. heimsótt verksmiðjubú, Brautarholtsbúið og bú á Vatnsleysuströndinni, þar sem verið er að sía blauthlutann frá fasta hlutanum og fasta hlutann er síðan hægt að nýta til landgræðslu. Þetta er mjög áhugavert verkefni sem einkaaðili þar er kominn í gang með. Í framtíðinni munum við því sjá meira af slíku.

En auðvitað er það alltaf akkillesarhællinn að menn þurfa að sjá sér einhvern hag í þessu, þetta þarf að vera hagkvæmt. Hingað til hefur þetta ekki verið talið neitt sérstaklega hagkvæmt, það er þær lausnir sem menn hafa verið að fikra sig fram með. En ég tel að það sé stutt að bíða til þess að menn geti fundið lausnir sem eru hagkvæmar þannig að fleiri fari út í þær.

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þessar ágætu umræður. Ég vonast til þess að málið fái góða skoðun í umhvn. og verði afgreitt sem lög frá Alþingi.