Úrvinnslugjald

Þriðjudaginn 12. nóvember 2002, kl. 15:45:44 (1316)

2002-11-12 15:45:44# 128. lþ. 27.8 fundur 337. mál: #A úrvinnslugjald# frv., ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 128. lþ.

[15:45]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Hæstv. forseti. Því ber að fagna að frv. til laga um úrvinnslugjald skuli hafa litið dagsins ljós. Við þurfum að leggja okkur betur fram við að skapa hagræn skilyrði til endurnotkunar og endurnýtingar eins og þetta frv. gerir ráð fyrir.

Ég verð að viðurkenna, hæstv. forseti, að hér er um mjög sérhæft og flókið mál að ræða. Ég áskil mér fullan rétt til að lúslesa þetta frv. áður en og meðan við fjöllum um það í hv. umhvn. Eins og hæstv. umhvrh. tók fram og skýrði út er með frv. verið að lögbinda úrvinnslugjöldin. Þetta er flókið og viðamikið mál. Það er gott að heyra að það sé unnið í sátt og samlyndi við Samtök atvinnulífsins, sveitarfélögin og aðra hagsmunaaðila sem hafa mest með að gera að hrinda verkefnunum í framkvæmd verði frv. að lögum.

Ég vil einnig nota tækifærið og benda hv. þingmönnum á að við erum hér að stofna nýja ríkisstofnun sýnist mér. Það hefði verið gaman að heyra í hv. þm. Sjálfstfl. um það mál. En þeir eru hvergi sjáanlegir í þessum sal. Úrvinnslusjóður heitir sú stofnun og mun hafa stjórn og starfsmenn og heyra undir hv. umhvrn., eins og fram hefur komið.

Eins og ég sagði hyggst ég ekki fara hér efnislega í málið. Ég vil þó benda á að gert er ráð fyrir því að úrvinnslugjaldið standi undir þeim kostnaði sem hlýst af endurnýtingu og endurvinnslu. Þannig á það að sjálfsögðu að vera og það hlýtur að vera markmið okkar að gera úrvinnslu og endurnýtingu þannig að kostnaður við hverja einustu vöru, hver sem hún er, hvort sem það er bíll, landbúnaðarplast, hjólbarði eða eitthvað annað, kostnaður við framleiðslu, notkun og förgun vörunnar sé innifalinn í verði hennar og sé alltaf tekinn inn í dæmið. Með öðrum hætti getum við ekki nýtt okkur hagræn stjórntæki. Við verðum þess vegna að reikna dæmið til enda. Það er gleðilegt að þetta skref skuli stigið með þessum hætti.

En eins og ég segi munum við skoða mjög vel kostnaðinn við málið í hv. umhvn. og spyrja hagsmunaaðila spjörunum úr um framkvæmd þess. En fyrsta skrefið lofar góður, herra forseti.