Úrvinnslugjald

Þriðjudaginn 12. nóvember 2002, kl. 15:47:43 (1317)

2002-11-12 15:47:43# 128. lþ. 27.8 fundur 337. mál: #A úrvinnslugjald# frv., ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 128. lþ.

[15:47]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Við fjölluðum áðan um frv. til laga um meðhöndlun úrgangs og nú frv. til laga um úrvinnslugjald. Sannarlega eru þetta frv. sem eiga saman og ég fagna þeim báðum. Þessi frumvörp kalla á breytta hugsun á mörgum sviðum. Eins kemur til aukinn kostnaður vegna þeirra. Kostnaður sveitarfélaganna við alla meðhöndlun á úrgangi eykst. Því flóknari sem flokkunin er og því flóknari sem úrvinnslan er, því kostnaðarsamara verður ferlið allt. En þannig viljum við hafa það. Það er mikilvægt að kostnaðurinn falli á þá sem valda kostnaðinum og því er óhjákvæmilegt að hafa úrvinnslugjald eins og hér er lagt til.

Minna má á það að númer eitt, tvö og þrjú þarf að hafa hugann við að minnka sem mest það sem til fellur, bæði í atvinnurekstri og inni á heimilunum og horfa til upprunans í hverju tilfelli, þ.e. minnka umbúðirnar.

Herra forseti. Frv. til laga um úrvinnslugjald kemur inn á ákveðna atvinnustarfsemi í landinu, m.a. landbúnaðinn. Með því að leggja gjald á mjólkurumbúðir hlýtur verð á hverjum mjólkurlítra eða landbúnaðarvörum að hækka. Ég vil í þessu sambandi benda á að eitthvert magn af landbúnaðarvörum, mjólkurvörum er flutt inn. Ég vil inna ráðherra eftir því hvort þetta gjald muni þá leggjast á t.d. innflutt jógúrt svo að innlendir framleiðendur standi a.m.k. jafnfætis þeim sem flytja inn mjólkurvörur. Ég vil nefna þetta sem hugsanlega eitt dæmi af mörgum sem fara þarf yfir. En það er mikilvægt að innlendir framleiðendur standi jafnfætis þeim sem framleiða á erlendum markaði.

Þessi frv. bæði eru í anda sjálfbærrar þróunar og Staðardagskrár 21. Vitaskuld er það á valdi hvers sveitarfélags fyrir sig að uppfylla stefnu ríkisstjórnarinnar hvað varðar förgun á sorpi og endurvinnslu.

Herra forseti. Ég ætlaði að beina spurningu til hæstv. ráðherra: Þó svo að ábyrgðin sé á hendi sveitarfélanna á að finna leiðir til úrvinnslu og förgunar eru margir þættir, grunnþættir, sem eðlilegt og gott væri að kæmu frá umhvrn. sem almenn fræðsla og hvatning. Slík hvatning hjálpar sveitarfélögunum að fara í átak eða vinna betur í sínum málum. Ég óska eftir því að hæstv. ráðherra upplýsi okkur um hvort ráðuneytið sé með í farvatninu að fara í almenna hvatningu eða fræðslu til almennings.