Endurreisn íslensks skipaiðnaðar

Þriðjudaginn 12. nóvember 2002, kl. 16:20:31 (1321)

2002-11-12 16:20:31# 128. lþ. 27.9 fundur 38. mál: #A endurreisn íslensks skipaiðnaðar# þál., Flm. SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 128. lþ.

[16:20]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þær upplýsingar sem hún hér veitir og það er vissulega fagnaðarefni að hreyfing er komin á málin. Eins og ég gat um í framsöguræðu minni var þessi tillaga flutt á síðasta þingi og þá stóð sú úttekt yfir sem núna hefur verið lokið. Tillagan tekur mið af þeim breytingum sem síðan hafa orðið og ég tel að hún sé í raun og veru í fullu samræmi og fullkomlega samrýmanleg því að hrinda þessum tillögum í framkvæmd og ég held að það væri vel og skynsamlegt að reyna að skapa sem víðtækasta samstöðu um málefni þessarar greinar, m.a. með því að stjórnskipuð nefnd fylgdi hlutunum eftir þar sem kæmu að þingflokkar eða stjórnmálaflokkar og aðilar atvinnulífsins og héldu utan um þessi mál með atvinnugreininni og ráðuneyti.

Það er alveg rétt hjá hæstv. ráðherra að það sem snýr að okkur er auðvitað kannski í grunninn það að tryggja að íslenskur skipaiðnaður, þó seint sé, fái nú loksins sambærileg starfsskilyrði og skipaiðnaðurinn í nágrannalöndunum. Við erum að sjálfsögðu ekki að fara fram á launakostnað eins og í Kína eða annað í þeim dúr. En það er þannig að þarna hefur hallað stórlega á íslenska iðnaðinn í samkeppni við sérstaklega norskar og spænskar skipasmíðastöðvar, og þó að nú eigi að heita svo að beinir ríkisstyrkir hafi verið afnumdir þá liggur engu að síður fyrir að það eimir eftir af ýmsum aðgerðum til stuðnings iðnaðinum. Ég nefni þar t.d. byggðastyrki sem eru heimilir samkvæmt reglum EES/ESB á þeim svæðum, á norðurströnd Spánar og í Norður- og Vestur-Noregi sem flokkast undir slík þróunarsvæði. Og það er auðvitað algjörlega ljóst að eigi að snúa vörn í sókn þá þarf að vinda bráðan bug að því að bæta úr þeim atriðum þar sem skóinn kreppir mest og hæstv. ráðherra nefndi þar reyndar hluti eins og fjármögnun og útflutningstryggingar.