Efling félagslegs forvarnastarfs

Þriðjudaginn 12. nóvember 2002, kl. 16:49:50 (1327)

2002-11-12 16:49:50# 128. lþ. 27.10 fundur 40. mál: #A efling félagslegs forvarnastarfs# þál., 41. mál: #A gjald af áfengi og tóbaki# (forvarnasjóður) frv., Flm. SJS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 128. lþ.

[16:49]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég held að einfaldara sé að mæla fyrir þessum málum báðum saman þar sem þau eru mjög samhangandi, og frv. á þskj. 41 er í raun og veru fylgifrv. með till. til þál. um eflingu félagslegs fornavarnastarfs á þskj. 40. Þar er um að ræða endurflutta tillögu frá síðasta þingi, þó nokkuð breytta. Tillagan hefur verið gerð fyllri og tekið inn í tillögugreinina með skýrum hætti hvernig fjár verði aflað til átaksins og hver hafi með höndum ráðstöfun þess fjármagns, þ.e. þetta verði fellt undir hið hefðbundna hlutverk áfengis- og vímuvarnaráðs, eins og ég kem nánar að.

Flm. tillögunnar ásamt með mér eru hv. þingmenn Kolbrún Halldórsdóttir og Þuríður Backman.

Tillögugreinin er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að vinna rammaáætlun um eflingu hvers kyns félagslegs forvarnastarfs sem verði liður í aðgerðum til að berjast gegn notkun ávana- og fíkniefna, þroska félagsvitund og bæta andlegt og líkamlegt heilbrigði ungs fólks.

Áætlunin feli í sér úttekt á félagsstarfi í einstökum sveitarfélögum og á landsvísu sem til greina kemur í þessu sambandi, svo sem starfi á vegum félagsmiðstöðva, ungmenna- og íþróttahreyfingarinnar, nemendafélaga, skáta, tómstundafélaga og trúfélaga. Einnig verði gerðar tillögur um hvernig vænlegast sé að efla slíkt starf þannig að árangur náist.``

Ég tek það fram, herra forseti, að ekki var ætlunin að hér væri um tæmandi upptalningu að ræða, að sjálfsögðu ekki, samanber hljóðan orðanna ,,svo sem`` því að auðvitað eru fjölmörg fleiri félagasamtök og ýmiss konar merkt starf sem ætti alveg eins erindi inn í þessa upptalningu. Hún yrði harla löng ef tilraun yrði gerð til að tæma hana, auk þess sem lengi væri hætta á því að eitthvað gleymdist. Ég gæti t.d. auðvitað nefnt bindindishreyfinguna og ýmis sérfélög sem starfa sjálfstætt utan eða í tengslum við íþróttahreyfinguna og þar fram eftir götunum.

,,Til átaksins verði varið allt að 10 millj. kr. á árinu 2002 til að undirbúa framkvæmd þess og síðan allt að 180 millj. kr. árlega í fimm ár eða þar til ákvarðanir verða teknar um frekara framhald þess. Tekna verði aflað með hækkun á hlutfalli áfengisgjalds sem rennur í Forvarnasjóð, sbr. 7. gr. laga nr. 96/1995. Áfengis- og vímuvarnaráð geri tillögur til heilbrigðisráðherra, sbr. 3. tölul. 3. gr. laga nr. 76/1998, um ráðstöfun þess fjár sem við bætist í Forvarnasjóð og sérstaklega er ætlað til eflingar félagslegu forvarnastarfi. Heilbrigðisráðherra setji, að höfðu samráði við menntamálaráðherra og félagsmálaráðherra, nánari ákvæði í reglugerð, sbr. 6. gr. laga nr. 76/1998, um þetta efni, þar með talið hvernig háttað skal samráði og samstarfi einstakra aðila sem málið varðar.

Ríkisstjórnin skili Alþingi árlega skýrslu um framkvæmd áætlunarinnar þar sem árangur átaksins er metinn.``

Eins og áður sagði, herra forseti, var þessi tillaga flutt á síðasta þingi í nokkuð breyttu og einfaldara formi en varð þá ekki útrædd. Tillagan er nú endurflutt með nokkrum breytingum, m.a. hefur verið tekið mið af atriðum sem fram komu í umsögn um tillöguna á síðasta þingi. Einnig var tekið mið af þeirri gagnrýni sem var hér sett fram á tillöguna um að ekki væri í henni mælt fyrir um tengsl þessa sérstaka forvarnaátaks við það starf sem fyrir er á vegum áfengis- og vímuvarnaráðs og fleiri aðila. Þá er einnig þess að geta að þar hefur verið unnið að því að virkja fleiri til þátttöku í þessum verkefnum, til að mynda er mikill áhugi á því að fá sveitarfélögin til virkari og meiri þátttöku í þessu starfi. Undir þau heyra félagsmiðstöðvarnar sem hér er ekki síst verið að horfa til en ég held að flestir sem til þekki viti að þar er unnið ákaflega mikið og fórnfúst starf af miklum vanefnum. Þar af leiðandi væri ákaflega kærkomið, veit ég, ef unnt væri með átaki af þessu tagi að styðja við bakið á þeirri starfsemi og reyndar starfsemi fjölmargra fleiri aðila sem búa við mjög þröngan kost hvað varðar fjárhagslegan grundvöll. Ýmis félagsskapur þarf oft og tíðum að reiða sig á fórnfúst sjálfboðaliðastarf, jafnvel reiða sig hreinlega á framlög frá einstaklingum þannig að stundum keyrir úr hófi fram. Það er vel þekkt vandamál þeirra sem til þekkja í félagsmálastarfi, margra þeirra aðila sem hér eru nefndir, eins og innan ungmenna- og íþróttahreyfingarinnar, að það er erfitt að fá fólk þar til starfa, m.a. vegna þeirra fjárhagslegu byrða sem á starfseminni hvíla, þeirra miklu erfiðleika sem eru við að ná þar endum saman. Oftar en ekki leiðist það út í að það fólk sem hefur þar tekið að sér forsvar situr jafnvel persónulega uppi með útgjöld í meira og minna mæli.

Það þarf ekki að fjölyrða hér, herra forseti, um þá vá sem m.a. er ætlunin að berjast gegn með átaki þessu. Það er, held ég, óumdeilt að þar er um að ræða eitt alvarlegasta samfélagsmeinið sem að okkur steðjar í nútímanum, þ.e. þá refilstigu ávana- og fíkniefnanotkunar sem ýmsir leiðast út á. Ekki síst blasa þá hætturnar við ungu fólki ef svo ber undir. Það er mat mjög margra sem við flm. höfum rætt við að það gæti verið gríðarlega mikilvægt innlegg í jákvæða, fyrirbyggjandi og uppbyggilega baráttu gegn þessum vágesti að gera allt sem mögulegt er til að efla hvers kyns félagslegt forvarnastarf sem við kjósum að kalla svo.

Fjármögnun átaksins yrði með þeim einfalda hætti, herra forseti, að áfengisgjaldið yrði hækkað úr 1%, sem það er nú, í 2%. Í greinargerð stendur að það ætti að vera strax 1. nóvember en það mætti vera seinna ef svo ber undir. Það gæti eða hefði getað gefið um 10 millj. kr. það sem eftir lifði ársins. Það skiptir kannski ekki öllu máli úr þessu heldur það sem mundi þá gerast á næsta ári eða næstu árum, og þá yrði áfengisgjaldið hækkað í 4% sem ætti að skila um 180 millj. kr. á ársgrundvelli miðað við þær upphæðir sem 1% skilar í dag.

Til að fylgja tillögunni eftir höfum við lagt fram frv. til laga um breytingu á lögum nr. 96/1995, um gjald af áfengi og tóbaki. 1. gr. þess frv. er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,1. málsl. 7. gr. laganna orðast svo: Af innheimtu áfengisgjaldi þeirra sem eru gjaldskyldir skv. 1. mgr. 2. gr. skal 1% renna í Forvarnasjóð.`` --- Það er óbreytt. --- ,,Á tímabilinu 1. nóvember til 31. desember árið 2002 skal þetta hlutfall vera 2% og síðan 4% frá og með 1. janúar árið 2003.``

Þessar dagsetningar, herra forseti, og upphæðir þyrfti að sjálfsögðu að endurskoða þegar frv. fengi hér endanlega afgreiðslu en það er handhægt að gera í meðförum hv. þingnefnda. Lögin mundu síðan helst öðlast þegar gildi og átakið gæti hafist á næsta ári.

Forvarnasjóður ætti því að hafa þessa auknu fjármuni til ráðstöfunar, herra forseti, að því tilskildu að menn séu tilbúnir til að færa tekjurnar til. Út af fyrir sig er það síðan sjálfstætt ákvörðunaratriði hvort menn hækka áfengisgjaldið sem þessum upphæðum nemur eða hvort menn færa tekjur hreinlega til, þá úr ríkissjóði yfir í sjóðinn. Ég held að það sé þá líka í góðu samræmi við heitstrengingar og loforð, gott ef ekki kosningaloforð um að gera stórátak í þessum efnum. Einhvern tíma var talað um heilan milljarð króna, herra forseti, sem deilur standa nú reyndar um að hvaða marki hafi skilað sér. Við skulum samt ekki fara út í þá sálma, halda okkur heldur við aðalatriði málsins sem er, að ég held, að það sé mjög freistandi að láta á það reyna hvort viðleitni í þessa veru getur ekki reynst vænleg í glímunni við þetta vandamál um leið og hún mundi þjóna þeim ákaflega jákvæða tilgangi að efla þessa starfsemi sem slíka. Hún er af sjálfri sér mjög góð, uppbyggileg og þroskandi. Við erum væntanlega öll sammála um að þátttaka ungs fólks í félagsstarfi og uppbyggilegu tómstundastarfi sé góð í sjálfu sér og þroskandi en hún hefur til viðbótar þennan kost --- og um það er yfirleitt ekki deilt --- að geta verið mjög öflug fyrirbyggjandi aðgerð á þessu sviði enda veit ég að til að mynda umsögn Íþróttasambands Íslands og fleiri á þeim bæ um þessa tillögu var mjög jákvæð. Reyndar fékk málið yfirleitt jákvæð viðbrögð frá öllum sem um það fjölluðu nema það komu athugasemdir eða ábendingar um að hugsanlega mætti búa betur um málið, t.d. hvað varðaði samhengi við hið hefðbundna forvarnastarf. Það hefur nú verið gert og ég vonast til þess að þær breytingar sem gerðar hafa verið á tillögunni og síðan þá flutningur frv. henni tengt komi til móts við óskir manna í þeim efnum. Ekki ættu að þurfa að verða neinar landamæradeilur eða togstreita um málið af þeim sökum enda væri það auðvitað mjög miður.

Ýmsir af þeim aðilum sem hér eru nefndir hafa líka gott af því að huga að því hvernig þeir standa að málum fyrir sitt leyti. Ég held að það hljóti að vera alveg leyfilegt, herra forseti, í anda hreinskilninnar að segja það hér að auðvitað gæta menn ekki alltaf að sér í þessum efnum innan íþróttahreyfingarinnar. Þar má stundum standa betur að málum hvað varðar samhengi hlutanna við þær hættur sem geta falist í áfengis- og vímuefnanotkun. Í það heila tekið held ég þó að um það sé lítil deila að iðkun slíkra hollra tómstunda og það að hafa slík áhugamál sé til góðs og þjóni margþættum tilgangi. Það þroskar félagsvitund, bætir andlegt og líkamlegt heilbrigði fólks og hefur í sér fólgið forvarnagildi sem auðvitað er útgangspunktur og grunnhugsun þessa máls.

Herra forseti. Það má væntanlega deila um hvert þessar tillögur ættu að ganga. Til greina kæmu félmn., heilbr.- og trn. og jafnvel allshn. þannig að ég áskil mér rétt til að skoða það þangað til atkvæðagreiðsla fer fram hvert tillögunni og frv. verður vísað. Ég held að heppilegast væri að þau gengju bæði til sömu nefndar og þá væri væntanlega vænlegast að allshn. fjallaði um málið.