Efling félagslegs forvarnastarfs

Þriðjudaginn 12. nóvember 2002, kl. 17:11:40 (1329)

2002-11-12 17:11:40# 128. lþ. 27.10 fundur 40. mál: #A efling félagslegs forvarnastarfs# þál., 41. mál: #A gjald af áfengi og tóbaki# (forvarnasjóður) frv., SJóh
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 128. lþ.

[17:11]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Hér liggur fyrir till. til þál. um eflingu félagslegs forvarnastarfs sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon flytur ásamt fleiri þingmönnum Vinstri grænna og einnig liggur fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um gjald á áfengi og tóbaki sem sömu hv. þingmenn flytja til að styðja við þáltill.

Ég ætlaði bara að lýsa ánægju minni með þessa þáltill. og ég tala ekki um þegar kemur í ljós að hæstv. menntmrh. hefur þegar lagt grunninn að ákveðnu undirbúningsstarfi sem gæti byggt undir framkvæmd tillögunnar og ég held einmitt að það sem hv. þm. Ásta Möller var að lýsa til viðbótar því sem stendur í þáltill. gæti fallið mjög vel saman.

Ég hef lengi verið kennari og umgengist börn og unglinga og mér er það ákaflega ljóst að það er ekki minnstur hluti í uppeldisstarfi, nauðsynlegu uppeldisstarfi sérstaklega unglinga að fá þá til að taka þátt í félagsstarfi. Nú er það svo að maður hefur horft upp á það á undanförnum árum að færra og færra fullorðið fólk gefur kost á sér í þessa endalausu ólaunuðu sjálfboðavinu sem hefur fylgt vinnunni í sambandi við þessi félög. Ég er t.d. að tala um skátafélögin, KFUM og KFUK og mörg félög sem hafa rekið t.d. á mínu svæði í Reykjanesbæ mjög gott og uppbyggilegt starf fyrir börn og unglinga, þannig að það hefur verið erfiðara og erfiðara að halda þessu starfi úti með algerlega ólaunuðum starfskrafti.

Ég held hins vegar að þessi starfsemi, og það að mögulegt sé að gera hana svo aðlaðandi að börn og unglingar flykkist að og taki þarna þátt, sé ákaflega mikilvæg og sérstaklega eins og hér er sagt í tillögunni til forvarna, til að varna því að þessi ungmenni leiðist út í ótímabæra áfengisdrykkju að ég tali ekki um fíkniefnaneyslu, og til að byggja upp varnir þeirra sjálfra gagnvart þeim tilboðum sem þau kunna að fá. Ég er þess vegna mjög fylgjandi þessari tillögu og tek líka undir þær tillögur sem hér eru gerðar til að fjármagna þessa starfsemi og vonast þá til að því fjármagni sé deilt út skynsamlega. Ég verð að segja í sambandi við íþróttahreyfinguna að mér finnst kannski svolítið ofmetinn forvarnaþáttur þess íþróttastarfs sem er rekið á þeim aldri sem þessi ungmenni eru sem við erum hér að ræða um vegna þess að þarna er oft búið að sía út og stór hluti ungmennanna hættir íþróttaiðkun við 13--14 ára aldur vegna þess að þá er búið að sía út þá sem eru líklegir afreksmenn og hin gefast upp. Auk þess, eins og hefur komið fram í umræðunum er íþróttahreyfingin fjármögnuð með lottópeningum og ég verð að segja að ef íþróttahreyfingin á að fá einhvern hlut af þeim peningum sem hér er verið að ræða um, þá held ég að verði að skilgreina það mjög nákvæmlega hvernig það verður nýtt og þá renni það ekki beint inn í afreksmannastarfið því að þar eru einmitt útilokuð þau börn og ungmenni sem í mestri félagslegri hættu eru gagnvart áfengi og fíkniefnum.

Mér finnst til mikillar fyrirmyndar það sem Hafnarfjarðarbær er t.d. að gera núna, að greiða niður þátttöku barna og ungmenna í æskulýðsstarfi vegna þess að það hefur ekki verið réttmætt hvernig þetta hefur komið niður á heimilum, tekjulág heimili með kannski mörg börn hafa hreinlega ekki getað leyft börnum sínum að taka þátt í æskulýðsstarfi, ég tala nú ekki um íþróttastarfi þar sem hefur þurft að leggja fram umtalsverða fjármuni.

Auk þess vil ég ítreka það í lokin að ekki er nóg að byggja upp varnir gegn fíkniefnum með því að byggja einhvern óvígan garð í kringum landið þar sem engin efni komast inn. Ég held að slíkt sé óviðráðanlegt og það verði svo áfram eins og hingað til að það sé aðeins brot af þeim efnum sem reynt er að flytja inn sem næst hér á landamærum miðað við landamæravörslu. Ég held að þær varnir sem þurfi fyrst og fremst að byggja upp séu varnir einstaklinganna sjálfra og það þarf að gera einmitt mjög markvisst í gegnum skólakerfið, mun markvissara kannski en nú er gert og einnig, eins og lagt er til í þáltill. sem ég vona innilega að verði samþykkt, með því að efla forvarnastarf eða almennt æskulýðsstarf frjálsra félagasamtaka í landinu.