Efling félagslegs forvarnastarfs

Þriðjudaginn 12. nóvember 2002, kl. 17:17:58 (1330)

2002-11-12 17:17:58# 128. lþ. 27.10 fundur 40. mál: #A efling félagslegs forvarnastarfs# þál., 41. mál: #A gjald af áfengi og tóbaki# (forvarnasjóður) frv., VigS
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 128. lþ.

[17:17]

Vigdís Sveinbjörnsdóttir:

Herra forseti. Til umræðu er forvarnastarf og vissulega er það afskaplega mikilvægt í þeim síharðnandi heimi sem við búum í. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon nefndi þátt sveitarfélaga, en þau styrkja ýmis félagasamtök sem starfa á þeirra svæði og það sem ekki er síður mikilvægt er að þau reka ýmsar stofnanir sem skipta miklu máli í uppeldis- og tómstundastarfi ungs fólks. Þau reka félagsmiðstöðvarnar, skólana, tónlistarskólana og víða eru íþróttafélögin að stórum hluta á höndum sveitarfélaganna.

Ekki síst þess vegna tek ég til máls því það er skoðun mín að forvarnastarfið sé öflugast þar sem þær stofnanir sveitarfélaganna eru sterkar og ná að starfa vel saman að þessum málum. Í því sambandi vil ég minna á að forsvarsmenn sveitarfélaga hafa lengi talað fyrir leiðréttingu á tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga og án þess að viðunandi niðurstaða hafi fengist. Ég vil því að það sé tekið með inn í dæmið að slík mál séu unnin heildstætt í samvinnu þeirra allra, bæði frjálsu félagasamtakanna og stofnana sveitarfélaganna því að þannig tel ég að vænlegast sé að ná árangri, að unnið sé heildstætt í þessum málum og árangursríkast sé að efla sveitarfélögin og styrkja stofnanir þeirra þannig að þau geti haft forustu um þau mál heima fyrir.