Útsendingar Ríkisútvarpsins

Miðvikudaginn 13. nóvember 2002, kl. 13:35:57 (1336)

2002-11-13 13:35:57# 128. lþ. 29.1 fundur 117. mál: #A útsendingar Ríkisútvarpsins# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi KLM
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 128. lþ.

[13:35]

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller):

Virðulegi forseti. Á þskj. 117 hef ég leyft mér að leggja fram fyrirspurn til hæstv. menntmrh. um móttökuskilyrði útsendinga Ríkisútvarpsins. Frá því er skemmst að segja að ég átti þess kost að vera þann 20. september með fjárln. á fundi með sveitarstjórn Raufarhafnarhrepps þar sem fyrsta og aðalmálið sem þeir ræddu við okkur var að fólk á þess ekki kost að horfa á útsendingar Ríkisútvarpsins nema annað slagið í svart/hvítu og að útvarp heyrist eiginlega alls ekki. Það kom, held ég, öllum fjárlaganefndarmönnum mjög á óvart að í lok september árið 2002 þyrfti að ræða um það við þingmenn að íbúar í ákveðnum hluta landsins gætu ekki notið þeirrar sjálfsögðu þjónustu að horfa á sjónvarp í lit eða hlusta á útvarp, Rás 1 og Rás 2. Þess vegna hef ég leyft mér að leggja þessa fyrirspurn fyrir hæstv. menntmrh. og óska eftir svörum við því sem er á þskj. 117.

Í framhaldi af þessari heimsókn og mikilli baráttu nýráðins sveitarstjóra Raufarhafnarhrepps hefur hins vegar ýmislegt örlítið skánað þar. Þannig kemur fram á heimasíðu Raufarhafnarhrepps að menn fóru eitt kvöld og skiptu um móttökuloftnet á vitanum við Raufarhöfn og það kom í ljós að þetta móttökuloftnet var kolónýtt og hefur sennilega verið það ansi lengi. Það var eins og við manninn mælt, sjónvarpið skánaði, og Raufarhafnarbúar eiga þess kost að horfa á sjónvarpið, m.a. þá væntanlega þessa útsendingu hér, í lit en ekki svart/hvítu eða kannski bara ekki neitt.

Hins vegar hafa móttökuskilyrði útvarps, Rásar 1 og Rásar 2, enn ekki skánað. Það er gaman að segja frá því að ég heyrði af ágætum höfuðborgarbúum ekki alls fyrir löngu, hjónum sem eru töluvert fyrir það að hlusta á fréttir og voru í heimsókn á Raufarhöfn. Þau gátu ekki heyrt fréttir á Rás 1 eða Rás 2 á Raufarhöfn af því að það var bara alls ekki hægt að hlusta á fréttir. Fólkið var vinsamlegast beðið að athuga að fólk á þessu svæði byggi ekki við þau sjálfsögðu mannréttindi sem þessi þjónusta Ríkisútvarpsins er á öðrum stöðum. Fólk var sem sagt vinsamlegast beðið um að fara út í bíl til að hlusta á útvarp, fréttir frá Rás 1 og Rás 2.

Herra forseti. Það er algerlega óviðunandi að komið sé svona fram við íbúa á ákveðnum svæðum á landinu, í heilu byggðarlögunum. Það sem ég rakti hér á jafnframt við um íbúa á Kópaskeri. Þess vegna vænti ég þess að við fáum skýr svör frá hæstv. menntmrh. við þeirri fyrirspurn sem ég gat um áðan og er á þskj. 117, og vænti þess reyndar að hann muni koma hingað dálítið borubrattur og segja okkur að búið sé að kippa þessu öllu í liðinn frá því að fjárln. var í heimsókn og fyrirspurnin lögð fram. Ég vona a.m.k. að það verði svarið.