Húsnæðismál Listaháskóla Íslands

Miðvikudaginn 13. nóvember 2002, kl. 14:02:43 (1348)

2002-11-13 14:02:43# 128. lþ. 29.3 fundur 232. mál: #A húsnæðismál Listaháskóla Íslands# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 128. lþ.

[14:02]

Menntamálaráðherra (Tómas Ingi Olrich):

Herra forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir spurninguna.

Á árinu 1996 var unnið deiliskipulag fyrir Kennaraháskóla Íslands og Sjómannaskóla Íslands á svonefndu Rauðarárholti. Deiliskipulagið var samþykkt af skipulagsyfirvöldum Reykjavíkurborgar og af menntmrn. Skipulagið gerir ráð fyrir að séð verði fyrir þörfum skólanna um nokkuð langa framtíð ásamt félagsaðstöðu nemenda svo og nemendaíbúðum.

Núverandi deiliskipulag felur það í sér að unnt er að byggja til viðbótar núverandi húsnæði um 10--16 þús. fermetra kennsluhúsnæði, þó að það kunni að vera rétt hjá hv. fyrirspyrjanda að með breyttu skipulagi væri hægt að byggja þar meira. Fram hafa komið tillögur um breytt skipulag vegna fjölgunar nemendaíbúða á svæðinu. Formlegar tillögur hafa ekki komið fram um aðrar breytingar á skipulagi svæðisins.

Nú eru í vinnslu og mjög langt komnar, að því er ég hygg, hugmyndir og skipulag og áætlanir um uppbyggingu á nemendaíbúðum á svæðinu sem koma til með að nýta allmikinn hluta af því svæði sem enn er óbyggt.

Listaháskóli Íslands, sem er einkaskóli, hefur undanfarin ár leitað eftir lóðum og aðstöðu fyrir framtíðarhúsnæði þess skóla og átti í því sambandi í viðræðum við Reykjavíkurborg og Hafnarfjarðarbæ. Skólinn hefur ekki leitað eftir aðstöðu á lóð Kennaraháskólans við Stakkahlíð, það liggur ljóst fyrir að það hefur ekki verið gert enn, en eðli málsins samkvæmt hefur ráðuneytið ekki haft frumkvæði að slíku þar sem hér er um einkaskóla að ræða.

Hins vegar er rétt að það komi fram hér að að frumkvæði fulltrúa menntmrn. og fjmrn. hefur verið óskað eftir því við Listaháskóla Íslands að háskólinn ynni og skilaði til ráðuneytisins húsrýmisáætlun eða þarfagreiningu á húsnæðisþörfinni. Þessi vinna er nú á lokastigi og eftir því sem ég best veit mun henni ljúka bráðlega, væntanlega fyrir áramótin. Þá mun koma í ljós hversu mikil húsnæðisþörf Listaháskólans er að eigin mati og þá verða forsendur fyrir því að ræða málið frekar. Það er hins vegar afar brýnt í sambandi við þá hugmynd sem hv. fyrirspyrjandi leggur hér fram að menn skoði hvernig það samrýmist annars vegar þörfum Kennaraháskólans, hins vegar þeim hugmyndum er varða nemendaíbúðir og í þriðja lagi hugsanlegt rými fyrir Listaháskólann, að menn átti sig á því hvernig þetta getur komið heim og saman í ljósi þeirrar skýrslu sem skilað verður um rýmisþörf Listaháskóla Íslands.