Húsnæðismál Listaháskóla Íslands

Miðvikudaginn 13. nóvember 2002, kl. 14:05:57 (1349)

2002-11-13 14:05:57# 128. lþ. 29.3 fundur 232. mál: #A húsnæðismál Listaháskóla Íslands# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi ÞKG
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 128. lþ.

[14:05]

Fyrirspyrjandi (Þorgerður K. Gunnarsdóttir):

Herra forseti. Þó að formlegar breytingar hafi ekki verið lagðar fram þá vil ég samt engu að síður skilja svar hæstv. menntmrh. þannig að hann útiloki ekki að kannað verði hvort þetta sé möguleiki, að hugsanlega fari fram könnun á því hvort rétt sé að reisa þarna húsnæði yfir Listaháskólann og hvort það væri hagkvæmt og líka raunhæft að samstarf milli þessara skóla yrði aukið.

Ég veit að verið er að vinna að könnun um húsnæðisþörf Listaháskóla Íslands. Ég man að í umræðunni á sínum tíma var verið að tala um 10 eða í mesta lagi 12 þús. fermetra húsnæði og mér skilst af þeim sem þekkja vel til að þetta svæði og vel það sé til staðar á því svæði á Rauðarárholtinu sem ég gat um áðan.