Fjöldatakmarkanir í Háskóla Íslands

Miðvikudaginn 13. nóvember 2002, kl. 14:24:44 (1360)

2002-11-13 14:24:44# 128. lþ. 29.5 fundur 273. mál: #A fjöldatakmarkanir í Háskóla Íslands# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 128. lþ.

[14:24]

Fyrirspyrjandi (Hjálmar Árnason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin og þeim þingmönnum sem hér lögðu orð í belg.

Ég hvet hæstv. ráðherra til að koma í síðara svari sínu nánar inn á á afstöðu hæstv. ráðherra til fjöldatakmarkana. Ég er þar að leita eftir skoðunum ráðherra.

Að sjálfsögðu virði ég eins og hæstv. ráðherra og aðrir sjálfstæði háskólans. En það er ekki þar með sagt, eins og hv. þm. Ásta Möller vék hér að, að Alþingi eða stjórnmálamenn firri sig skoðun eða ábyrgð á þeim skóla eða hlutverki þeirrar stofnunar fyrir okkar þjóðfélag, samanber það dæmi sem hér var ágætlega nefnt um skort á hjúkrunarfræðingum og læknum í heilbrigðiskerfinu. Við hljótum að þurfa að taka afstöðu til þess. Þingið ber nokkra ábyrgð á því.

Ég vil taka fram að umræddar deildir, með þessar fjöldatakmarkanir, skila að sjálfsögðu úrvalsfólki inn á markaðinn og til starfa í dag. Með afnámi fjöldatakmarkana er ég ekki að tala um að lagt verði til að slegið verði af námskröfum heldur einungis að sömu kröfur verði gerðar og þekkjast í öðrum deildum. Málið snýst um að þeir sem ná lágmarksfærni standist próf eins og þekkist meðal verkfræðinema. Þar eru engar fjöldatakmarkanir en deildin skilar eigi að síður úrvalsfólki til starfa í atvinnulífinu. Þar ríkir reyndar samkeppni og nýtur bæði greinin sjálf og atvinnulífið góðs af þeirri samkeppni sem ríkir innan stéttarinnar. Því skyldi það ekki einnig gilda um áðurnefndar námsgreinar?

Ég spyr hvort það standist jafnræðisreglu að mismuna nemendum háskólans með þessum hætti. Er þetta manneskjulegt eða yfir höfuð réttlætanlegt með nokkrum hætti? Ég tel tímabært að fella niður fjöldatakmarkanir í háskólanum.