Fjarnám í fámennum byggðum

Miðvikudaginn 13. nóvember 2002, kl. 14:38:09 (1366)

2002-11-13 14:38:09# 128. lþ. 29.6 fundur 274. mál: #A fjarnám í fámennum byggðum# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., PBj
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 128. lþ.

[14:38]

Pétur Bjarnason:

Herra forseti. Fjarkennsla og fjarnám hafa opnað alveg nýjar víddir, opnað nýja möguleika og rutt burtu landamærum bæði milli þjóða og byggða. Ég vil byrja á að leiðrétta það sem kom fram hér áðan, en frumkvöðull í þessu á háskólastigi hér á landi er Kennaraháskóli Íslands sem var kominn vel á veg með fjarkennslu um það leyti sem Háskólinn á Akureyri var stofnaður, án þess að ég ætli að rýra það ágæta starf sem skólarnir þar hafa unnið og er mikils virði.

Hérna var rætt um fjarkennslu á grunnskólastigi. Þess má geta að í Hólmavíkurskóla og Broddanesskóla fór fram merkilegt tilraunastarf fyrir nokkrum árum þar sem þó nokkur reynsla fékkst af þessu og ljóst er að hægt er að nota fjarkennslu með öðru efni á grunnskólastigi þó að hún nýtist e.t.v. enn þá betur á háskólastigi og framhaldsskólastigi eins og reynslan hefur svo sannarlega sýnt. En það er mjög ánægjulegt að þetta mál skuli vera komið á dagskrá.