Fjarnám í fámennum byggðum

Miðvikudaginn 13. nóvember 2002, kl. 14:39:20 (1367)

2002-11-13 14:39:20# 128. lþ. 29.6 fundur 274. mál: #A fjarnám í fámennum byggðum# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., JB
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 128. lþ.

[14:39]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Það er alveg hárrétt að miklir möguleikar opnast með fjarnámi í að efla allt nám og símenntun, allt frá grunnskólanámi, framhaldsskólanámi og upp í háskólanám, og í því hefur verið unnið heilmikið átak.

En það er ekki nóg, herra forseti, að hafa þetta sem gott markmið og góða stefnu ef fjarskiptatæknin og flutningsgetan stendur ekki undir þeim væntingum sem þarf til þess að af verði. Vandinn er sá að bæði vantar gagnalínur vítt og breitt um landið og verð á gagnaflutningum og símkostnaður fer snarhækkandi og gerir þetta starf örðugra.

Ég vil því spyrja hæstv. menntmrh.: Hvernig hyggst hann framfylgja þessum ágætu markmiðum sínum gagnvart fjarskiptatækninni og gagnvart gagnaflutningunum í landinu, því þar er hinn raunverulegi akkillesarhæll?