Fjarnám í fámennum byggðum

Miðvikudaginn 13. nóvember 2002, kl. 14:43:38 (1370)

2002-11-13 14:43:38# 128. lþ. 29.6 fundur 274. mál: #A fjarnám í fámennum byggðum# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 128. lþ.

[14:43]

Menntamálaráðherra (Tómas Ingi Olrich):

Herra forseti. Það er nauðsynlegt vegna þess sem hér hefur verið sagt að taka fram að menntmrh. fer ekki með dreifikerfið. Það er á borði annars ráðherra þannig að það er eðlilegt að þessi umræða fari fram í því ljósi að menn reki það til menntmrh. sem er á hans borði og hans ábyrgð. (Gripið fram í.)

Þess vegna er mikilvægt að það komi fram hér, ekki síst vegna þess sem hv. þm. Jón Bjarnason sagði --- hann er ekki lengur í salnum sýnist mér --- að til þess að koma til móts við þann aðstöðumun sem er vegna verðlagningar og dreifikerfisins þá hefur ráðuneytið beitt sér fyrir útboði á háhraðaneti, eins og hér kom skýrt fram áðan, til þess að allar símenntunarmiðstöðvarnar, allir framhaldsskólarnir og allar útstöðvar símenntunarmiðstöðvanna búi við sömu aðstæður. Það er þetta sem ég kalla að sé byltingarkennd breyting og miðar hún að því að allir sitji við sama borð.

Það er einnig gott að það komi fram hér að fjarnám á netinu er ekki undantekning eins og mér fannst að gæti skilist hér heldur er það reglan, t.d. um dreifingu náms á framhaldsskólastigi. Svo ég taki dæmi þá miðlar Verkmenntaskólinn á Akureyri námsefni sínu að langmestu leyti, ef ekki algjörlega, í gegnum netið. Þess vegna hafa nemendur aðgang að því námsefni þegar þeir kjósa það. Það er mjög mikilsvert að menn átti sig á því að grunnurinn að fjarnáminu er einmitt netið þegar um framhaldsskólana er að ræða.

Ég vil þess vegna taka það skýrt fram að ég sem menntmrh. styð mjög eindregið uppbyggingu dreifikerfisins. Það mál er ekki á mínu borði. En ég hef gert það sem ég hef getað til þess að tryggja að allar útstöðvar og símenntunarmiðstöðvar og framhaldsskólar búi við sömu aðstæður hvar sem þeir eru á landinu.