Aðbúnaður og öryggi á sjúkrahúsum

Miðvikudaginn 13. nóvember 2002, kl. 14:46:15 (1371)

2002-11-13 14:46:15# 128. lþ. 29.7 fundur 82. mál: #A aðbúnaður og öryggi á sjúkrahúsum# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi JóhS
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 128. lþ.

[14:46]

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram fyrirspurn til hæstv. heilbrrh. um aðbúnað og öryggi á sjúkrahúsum, en í langan tíma hafa staðið yfir deilur milli stjórnvalda og Félags ungra lækna varðandi hvíldartíma lækna. Í þessu sambandi halda forsvarsmenn Félags ungra lækna því fram með réttu að allar reglur um hvíldardaga og frídagatöku á sjúkrahúsum séu brotnar og er því um það að ræða að vinnuverndarlöggjöfin er þverbrotin. Lagabreyting sem ríkisvaldið ætlaði að keyra í gegn á síðasta þingi mætti mikilli andstöðu og náði ekki fram að ganga og reyndar er hún einnig í andstöðu við EES og Evrópusambandsreglugerðir en hún fól í sér að ákvæði vinnuverndarlaga um hvíldartíma næðu ekki til lækna í starfsnámi.

Tilraunir til að leysa málið síðan hafa verið í tómu klúðri og starfshópur sem heilbrrh. skipaði í júlí og átti að skilgreina hverjir væru læknar í sérnámi og ljúka störfum í septembermánuði sl. hafði ekki komið saman á þeim tímapunkti sem hann átti að ljúka störfum. Ekki liggur því enn fyrir skilgreining á því hverjir eru læknar í sérnámi en eftir því hefur verið beðið allt frá árinu 1997.

Því er staðan nú sú að allir læknar sem ekki hafa lokið sérfræðinámi eru flokkaðir sem læknar í starfsnámi og njóta þeir ekki sömu hvíldarréttinda og aðrir læknar vegna þeirra ákvæða sem sett voru í kjarasamninga og sem brjóta gegn lögum og reglum EES. Forsvarsmenn ungra lækna hafa reyndar haldið því fram að dæmi séu um að læknar á sextugs- og sjötugsaldri teljist til unglækna og falli undir undanþágu laganna um eðlilegan rétt til hvíldartíma í starfi. Enn tíðkast að ungir læknar standi sólarhringsvaktir á sjúkrahúsum og dæmi eru um að allt að þrjá sólarhringa samfellt á bundinni vakt á sjúkrahúsum sem hafa lækna í starfsnámi.

Þetta er ekki forsvaranlegt, herra forseti, og vítavert bæði út frá öryggi sjúklinga á sjúkrahúsum og rétti lækna í starfsnámi til hvíldar samkvæmt þeim sömu ákvæðum sem gilda á vinnumarkaði, og í því sambandi er rétt að vísa til bréfs frá yfirlækni Vinnueftirlitsins og landlækni, sem þeir sendu sameiginlega til heilbrrh. í sumar, en þar segir orðrétt, með leyfi forseta:

,,Líkur á mistökum aukast og þekkt eru ýmis dæmi um mistök lækna sem rekja má að öllu eða að hluta til óhóflegs vinnutíma.``

Og síðar segir:

,,Vinnueftirlitið og landlæknisembættið telja það því brýnt af vinnuverndarástæðum og vegna öryggishagsmuna almennings að hvíldartímaákvæði sem almennt gilda á vinnumarkaði nái einnig til unglækna og lækna í framhaldsnámi.``

Því hef ég leyft mér að beina fyrirspurn til ráðherra um hver afstaða hans sé til þess að allar reglur um hvíldardaga og frídagatöku á sjúkrahúsum séu brotnar.

Telur ráðherra eðlilegt að læknar í starfsnámi séu undanþegnir ákvæðum um lágmarkshvíld?

Telur ráðherra að hætta sé á mistökum og slysum vegna álags á unga lækna sem ekki fá tilskilinn hvíldartíma og að öryggi sjúklinga sé með því stefnt í hættu?

Einnig spyr ég:

Hver er afstaða ráðherra og hvernig ætlar hann að bregðast við þeim aðgerðum sem boðaðar hafa verið um að gripið verði til opinberra rannsókna á lögbrotum sjúkrahúsanna á grundvelli 99. gr. laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum eins og lögmaður Félags ungra lækna hefur ítrekað bent á að væri í undirbúningi?