Aðbúnaður og öryggi á sjúkrahúsum

Miðvikudaginn 13. nóvember 2002, kl. 14:49:32 (1372)

2002-11-13 14:49:32# 128. lþ. 29.7 fundur 82. mál: #A aðbúnaður og öryggi á sjúkrahúsum# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 128. lþ.

[14:49]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Hv. 5. þm. Reykv., Jóhanna Sigurðardóttir, hefur beint til mín fyrirspurn um aðbúnað og öryggi á sjúkrahúsum. Beinist fyrirspurnin einkum að vinnutíma og hvíldartíma unglækna.

Ég vil í upphafi, herra forseti, taka fram að það er afdráttarlaus skoðun mín að stjórnendum sjúkrahúsa beri að virða lög um vinnutíma, aðbúnað og hollustuhætti á vinnustöðum, óháð því hvaða starfsstétt á í hlut. Vel er kunnugt að vinnutími margra heilbrigðisstétta var mjög langur, vaktir tíðar og álag tímabundið mjög mikið. Þetta hefur leitt til þess að á mörgum sjúkrahúsum hefur skipulagi vinnutíma, vakta og hvíldartíma verið breytt á undanförnum árum til þess að draga úr löngu og ströngu vinnuálagi. Þessar breytingar hafa verið gerðar í samráði og samkomulagi við viðkomandi stéttir í fullri trú á að þær hafi rúmast innan ákvæða laga.

Ákvæði laga um lágmarkshvíld hljóta að gilda jafnt á sjúkrahúsum sem annars staðar, jafnt fyrir unga lækna og aðra lækna og jafnt fyrir lækna sem aðrar stéttir. Ákvæði tilskipana Evrópusambandsins um hvíldartíma munu taka gildi hér að fullu eftir tæp tvö ár en þau hafa að hluta undanþegið nokkrar starfsstéttir, m.a. lækna í starfsnámi. Skerpa tilskipanirnar á ákvæðum þeim sem gilt hafa um hvíldartíma. Tel ég að sjúkrahús eigi að hafa nægan tíma til að aðlaga sig að þessum breyttu ákvæðum.

Herra forseti. Hv. þm. nefndi einnig í fyrirspurn sinni að í undirbúningi væru aðgerðir sem boðaðar hafa verið og felast í því að gripið verði til opinberra rannsókna á lögbrotum sjúkrahúsa á grundvelli laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Tel ég í ljósi þessa undirbúnings um málsókn og rannsókn ekki rétt að ég tjái mig nánar um það mál að svo stöddu. Ég tel þó rétt að geta þess að í júlí sl. fundaði ég með stjórnendum Landspítala vegna krafna unglækna um breytt vinnu- og vaktafyrirkomulag. Í framhaldi af þeim fundi beindi ég þeim tilmælum bréflega til stjórnenda spítalans að kanna í samvinnu við unglækna leiðir til að breyta vinnu- og vaktafyrirkomulagi unglækna til að ná fram fjölskylduvænni starfsmannastefnu í anda sjónarmiða sem landlæknir og yfirlæknir Vinnueftirlits ríkisins höfðu bent á og kom fram í máli fyrirspyrjanda. Að þessu hefur verið unnið og ég hef enga ástæðu til að ætla annað en að að því sé unnið af fullum heilindum.

Ég vil að endingu, herra forseti, geta þess að ég tel mikið álag á allar stéttir, lækna jafnt sem aðra, á spítölum og það skapi aukna áhættu jafnt fyrir starfsmenn sem þiggjendur þjónustunnar, og að tilskilinn hvíldartíma beri að virða.