Samkeppnisstaða íslenskrar mjólkurframleiðslu

Miðvikudaginn 13. nóvember 2002, kl. 15:11:21 (1381)

2002-11-13 15:11:21# 128. lþ. 29.20 fundur 333. mál: #A samkeppnisstaða íslenskrar mjólkurframleiðslu# fsp. (til munnl.) frá landbrh., Fyrirspyrjandi VigS
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 128. lþ.

[15:11]

Fyrirspyrjandi (Vigdís Sveinbjörnsdóttir):

Herra forseti. Öðru hverju vakna hér á landi umræður um bág kjör bænda og vissulega er ástandið víða óþarflega slæmt. Kjötframleiðsla í landinu er í ógöngum og sem dæmi má nefna að á síðustu tíu árum hefur verð til nautakjötsframleiðenda lækkað um helming á meðan verðið út úr búð hefur hækkað um u.þ.b. 20%. Þarna á að heita að lögmál samkeppni ríki, alla vega á sviði framleiðslu og vinnslu. En einhver á leið afurðanna frá bónda til neytanda er að hagnast.

Það er smásöluverslunin sem ræður ferðinni á kjötmarkaðnum og hefur lengi haft áhuga á að ráða líka ferðinni á mjólkurvörumarkaðnum. Mjólkurframleiðsla er þó sú grein sem hefur skilað bændum skárri afkomu, með miklu vinnuálagi að vísu. Nú þegar fyrir liggur að gera nýjan samning við kúabændur um starfsskilyrði mjólkurframleiðslunnar er nokkuð dæmigert að umræða fer af stað í fjölmiðlum um hátt verð á landbúnaðarvörum.

Við á Íslandi búum almennt við hátt vöruverð og á það einnig við um vöru og þjónustu sem bændur þurfa að kaupa til rekstrar síns. Það er dálítið merkilegt hvernig verð á landbúnaðarvörum er ævinlega tekið út úr og borið saman við verð á niðurgreiddum vörum annarra ríkja án þess að skoða samhengið frekar.

Undir því yfirskyni að verð muni lækka hefur verslunin áhuga á að ná meiri tökum á mjólkurvörumarkaðnum og í nafni samkeppni að koma í veg fyrir samræmda heildsöluálagningu og samráð í mjólkuriðnaðinum sem notað hefur verið til hagræðingar í framleiðslunni.

Reynslan á kjötmarkaðnum ætti að vera mönnum víti til varnaðar og ef ekki er ætlunin að leggja mjólkurframleiðsluna í sömu rúst þarf alla vega að gera ráðstafanir sem halda í þeirri framleiðslugrein. Þegar sú ákvörðun var tekin að nýta sér ekki kynbótastarf annarra þjóða með því að flytja inn fósturvísa til kynbóta á íslenska kúastofninum heldur finna upp hjólið sjálf og halda áfram 1100 ára kynbótastarfi á íslensku kúnni þá hafa menn væntanlega gert sér grein fyrir því að íslenskir mjólkurframleiðendur gætu ekki staðið jafnt að vígi við að framleiða ódýra mjólk í samkeppni við þá sem hafa afkastameiri framleiðslutæki.

Gæði íslensku mjólkurinnar eru talin einstök og það má vel vera. Ekki ætla ég að rengja það. En þegar neytandinn dregur upp budduna úti í búð þá er ég hrædd um að verðið komi til með að ráða úrslitum. Það er því grundvallarspurning hvort menn ætli að framleiða hér áfram þessa gæðamjólk og standa vörð um framleiðsluna eða koma málum þannig fyrir að mjólk og mjólkurvörur verði fluttar inn.

Ég spyr því hæstv. landbrh.: Hvernig hyggst hann standa vörð um mjólkurframleiðsluna í landinu við vaxandi samkeppni og æ háværari kröfur um aukna samkeppni?