Samkeppnisstaða íslenskrar mjólkurframleiðslu

Miðvikudaginn 13. nóvember 2002, kl. 15:14:17 (1382)

2002-11-13 15:14:17# 128. lþ. 29.20 fundur 333. mál: #A samkeppnisstaða íslenskrar mjólkurframleiðslu# fsp. (til munnl.) frá landbrh., landbrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 128. lþ.

[15:14]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Hvernig eigum við að standa vörð um mjólkurframleiðsluna til framtíðar? Það gera menn fyrst og fremst í gegnum kraftmikla og framsýna bændur sem trúa á atvinnu sína og vinna af dugnaði. Við höfum séð mikinn árangur í þeim efnum og sterkar afurðastöðvar sem þróa sínar afurðir.

[15:15]

Sannleikurinn er sá að við eigum mjög öfluga íslenska bændur en þeir hafa gengið í gegnum mikið þróunarskeið á síðustu tíu árum. Sem dæmi um það má nefna að mjólkurframleiðendum hefur fækkað á tíu árum úr 1.800 niður í 1.100. Íslenskum mjólkurkúm hefur fækkað úr 31.000 í 26.000 á sama tíma. Á sama tíma hafa búin stækkað, að meðaltali úr 18 kúm í 24 kýr. Nytin úr íslensku kúnni hefur á sama tíma aukist úr 4.100 lítrum í 4.900 lítra á ári. Íslenskir bændur hafa þannig sótt fram af miklum krafti og náð miklum árangri.

Það sem veldur mér áhyggjum er fyrst og fremst að íslenskir neytendur hafa minnkað nýmjólkurneyslu sína sem getur haft heilbrigðisleg vandamál í för með sér í framtíðinni. Ég nefni það að fyrir tíu árum var meðalneysla Íslendinga 193 lítrar á mann. Hún er komin niður í 151 lítra. Í staðinn hefur auðvitað neysla mjólkur í gegnum osta og aðrar vörur, skyr.is og fleira, aukist úr 10 kílóum í 15. Við getum sagt að ef íslenskir bændur ættu þennan markað í nýmjólkurneyslu eins og þeir áttu fyrir tíu árum, þá væru seldar 12 milljónum fleiri lítrar af mjólk í dag.

Þetta er auðvitað verkefni sem bændurnir verða að hugsa um. Þetta snýr að heilsufari þjóðarinnar í framtíðinni. Landlæknir birtist á hverju kvöldi ásamt fólki í heilbrigðismálum og hvetur til mjólkurdrykkju. Þarna eiga bændur mikla möguleika til að efla sinn markað.

Þetta vildi ég segja um mjólkina og segja jafnframt frá því að vinna að stefnumótun og gerð nýs búvörusamnings um starfsskilyrði mjólkurframleiðslunnar er hafin. Þó að þrjú ár séu eftir að þeim samningi sem nú gildir hafa menn óskað eftir að hann verði endurskoðaður og eiga fullan rétt á því. Þeim þykir auðvitað mikilvægt að sjá til framtíðar í störfum sínum, helst sjö til tíu ára. Þetta verkefni er þannig farið af stað og það skiptir máli.

En ég sé líka ýmsa fleiri möguleika. Hér var fyrir stuttu heilbrigðisráðherra Bandaríkjanna. Hann vakti athygli á gæðum íslensku mjólkurinnar og taldi hana svo merkilega góða mjólk að hann var tilbúinn að senda hingað vísindamenn og fjármagn til að rannsaka hana sérstaklega, ekki síst út frá vörn gegn sykursýki. Undirtektir við þessari frábæru náttúruafurð eru hvarvetna góðar. Mjólkurafurðirnar vekja athygli og við erum í fremstu röð í gegnum mikið fagfólk í vinnslu þessara afurða og vinnum mörg gullin á heimsmeistaramótum fyrir mjólkurafurðir. Mér finnst því tiltölulega bjart fram undan hvað þetta varðar. Menn þurfa í sjálfu sér ekki að kvíða því ef bændurnir standa vörð um að efla búin eins og þeir hafa gert síðustu árin af miklum myndarskap.

Ég vil líka segja að ég á mér þann draum að íslenskur landbúnaður verði metinn sem sérstök náttúruafurð í heild. Ég held að íslenskir bændur og íslensk stjórnvöld eigi virkilega að hugsa um það að íslenski landbúnaðurinn verði vistvænn á heimsmælikvarða og vottaður sem slíkur. Það getur hjálpað til að sjálfbær landbúnaður er tíska í dag og á mikla möguleika. Fjölskyldubúin sem hér eru rekin þau eru tákn gæða, ekki bara á Íslandi, heldur um víða veröld.

Ég vil í þessari upphafsræðu minni segja við hv. þm. að möguleikarnir eru miklir. Við eigum sterka bændur. Við eigum góða neytendur sem hafa á síðustu árum sýnt að þeir standa þéttan vörð um íslenskan landbúnað. Þannig er staðan tiltölulega góð og björt.