Samkeppnisstaða íslenskrar mjólkurframleiðslu

Miðvikudaginn 13. nóvember 2002, kl. 15:21:06 (1384)

2002-11-13 15:21:06# 128. lþ. 29.20 fundur 333. mál: #A samkeppnisstaða íslenskrar mjólkurframleiðslu# fsp. (til munnl.) frá landbrh., HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 128. lþ.

[15:21]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Upp úr 1980 varð hrun í sjávarútvegi á Íslandi en það er ánægjulegt að upp úr þeirri öskustó reis sjávarútvegurinn með þeim afleiðingum að verðmætasköpun í sjávarútvegi hefur aldrei verið meiri, þrátt fyrir að aflinn sé töluvert minni, einkum í botnfiski.

Hvernig tókst mönnum að gera þetta? Menn sóttu fram á nýjum sviðum. Menn leituðu fanga á nýjum sviðum innan sjávarútvegsins. Hvernig gerðu menn það? Með því að tengja rannsóknir og vísindastarf við þá auðlind sem hafið er.

Herra forseti. Ég tel að landbúnaður á Íslandi standi á svipuðum tímamótum og sjávarútvegurinn fyrir 1980. Þess vegna hljótum við að horfa til framtíðar hvað varðar íslenskan landbúnað. Hvernig er hægt að sækja fram á nýjum sviðum? Þar verður að líta til líftækni, samstarfs við nágranna okkar á öllum sviðum og tengja vísindi og rannsóknir við þá einstöku auðlind sem íslenskur landbúnaður er og þau sóknartækifæri sem þar felast. Þannig hygg ég að við styðjum best við bakið á íslenskum landbúnaði.