Samgöngur milli lands og Vestmannaeyja

Miðvikudaginn 13. nóvember 2002, kl. 15:32:08 (1391)

2002-11-13 15:32:08# 128. lþ. 29.9 fundur 98. mál: #A samgöngur milli lands og Vestmannaeyja# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 128. lþ.

[15:32]

Fyrirspyrjandi (Ísólfur Gylfi Pálmason):

Herra forseti. Um langt skeið hafa verið miklar umræður um greiðari samgöngur milli lands og Eyja. Vestmanneyingar hafa verið afar óánægðir með þennan þátt mála sem er ein af lífæðum þeirra. Íbúar hafa m.a. kennt samgönguþættinum um viðvarandi fólksfækkun, enda er talið að í nútímaþjóðfélagi séu greiðar samgöngur undirstaða byggðar og atvinnulífs. Þá hafa öruggar samgöngur mikil áhrif á öryggismál íbúanna, um leið og þau hafa afgerandi áhrif á samkeppnisstöðu landsvæðisins við önnur byggðarlög. Þannig er ferðaþjónusta einn af vaxtarbroddum íslensks atvinnulífs. Möguleikar Vestmanneyinga í ferðamennsku og ferðaþjónustu byggjast á greiðu og öruggu samgönguneti.

Að sögn heimamanna hefur á undanförnum missirum dregið úr ferðamennsku eða dregið úr því að ferðamenn heimsæki Vestmannaeyjar, sérstaklega þó stærri hópar. Þrátt fyrir að Eyjarnar séu einstök náttúruparadís og auk þess eru möguleikar þeirra í þessari atvinnugrein nær óþrjótandi, eins og sá sem gengur hér fyrir ræðustólinn veit manna best. Benda má á einstaka íþróttaviðburði en Vestmanneyingar eru sérfræðingar í að skipuleggja slíka viðburði. Það má nefna úteyjarnar í Vestmannaeyjum, það má nefna náttúruskoðun og einstakt og skemmtilegt mannlíf sem þar er.

Einnig hefur verið bent á að eftir að Flugfélag Íslands hætti áætlunarflugi til Vestmannaeyja hafa Eyjarnar dottið út úr auglýstu samgönguneti Flugleiða sem stýrir stærstum hluta ferðamannastraums til Íslands. Að mínu mati er brýn þörf að gera tilraunir með farkosti eins og loftpúðaskip, flugbáta, tvíbytnu og fleira til að fá úr því skorið hvort slíkir samgöngumöguleikar gætu verið kostur í samgönguneti Eyjamanna. Um leið er brýnt að hraða rannsóknum á Bakkafjöru með bryggjuframkvæmdir í huga. Þá er einnig spurning hvort ekki beri að greiða niður flug á milli lands og Eyja eins og sums staðar er gert.

Til þess að komast að hinu sanna um farþegafjölda til Vestmannaeyja, þá hef ég lagt fram spurningu til hæstv. samgrh. og þar spyr ég:

Hve margir farþegar flugu annars vegar til Vestmannaeyja og hins vegar frá Vestmannaeyjum um:

a. Bakkaflugvöll,

b. Selfossflugvöll,

c. Reykjavíkurflugvöll

árin 1995--2001, sundurliðað eftir árum?

Ég spyr einnig:

Hve margir farþegar og hve mörg farartæki voru flutt með Herjólfi sömu ár, sundurliðað eftir árum?

Og að lokum:

Hvernig hyggst ráðherra tryggja betri samgöngur milli lands og Eyja?