Sjálfbær ferðamennska og umhverfisvernd

Miðvikudaginn 13. nóvember 2002, kl. 15:53:16 (1400)

2002-11-13 15:53:16# 128. lþ. 29.10 fundur 123. mál: #A sjálfbær ferðamennska og umhverfisvernd# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 128. lþ.

[15:53]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Spurt var: Hefur framkvæmdaáætlun sem ráðherra setti fram í janúar 1998 um sjálfbæra ferðamennsku og umhverfisvernd verið fylgt eftir? Enn fremur er spurt hver staðan sé varðandi markmið áætlunarinnar sem síðan eru talin upp.

Svar mitt er að samgrh. lét vinna framkvæmdaáætlun, eins og fram kom hjá hv. fyrirspyrjanda, í janúar 1998 um sjálfbæra ferðamennsku og umhverfisvernd og eftir þeirri áætlun er unnið í ráðuneytinu og í stofnunum þess.

Spurt er hvort Ísland nái sérstöðu á sviði umhverfismála.

Svar mitt við því er að kannanir Ferðamálaráðs sýna að meiri hluti þeirra ferðamanna sem sækir Ísland heim er náttúruunnendur og hefur landið nú þegar ákveðna sérstöðu hvað þetta varðar. Ein leið til að ýta frekar undir þá sérstöðu er að sýna fram á að af hreinu og ómenguðu landi koma hreinar og hollar afurðir.

Ég beitti mér fyrir því árið 1999 að stofna til átaksins Iceland Naturally í Norður-Ameríku þar sem lögð er áhersla á að kynna hreinar og hollar afurðir landsins, auk þess sem landið er kynnt sem umhverfisvænn áfangastaður.

Ég tel mikilvægt að víðtæk þátttaka sé í umhverfisverkefnum og að fyrirtæki fái alþjóðlega vottun og viðurkenningu sem nýtist við kynningu á landinu. Nokkur fyrirtæki hafa nýlega fengið umhverfisvottun, t.d. Hótel Eldhestar, Ferðaþjónusta á Hellnum og Guðmundur Tyrfingsson rútufyrirtæki. Stærsta skrefið sem stigið verður á næstunni er að ferðaþjónusta bænda hyggst leita eftir vottun Green Globe fyrir fyrirtæki innan vébanda sinna. Ákveðið hefur verið að Hólaskóli muni sjá um úttekt á fyrirtækjunum og verður samgrn. fjárhagslegur bakhjarl skólans í þessu stóra og mikilvæga verkefni.

Þá er spurt hvort ferðamennska verði nýtt sem afl til verndunar auðlindum.

Svar mitt er að Ferðamálaráð hefur eftir minni ósk umsjón með kortlagningu þeirrar auðlindar sem náttúra landsins er ferðaþjónustunni. Þá hafa tvær nefndir á mínum vegum lokið störfum. Önnur fjallaði um heilsutengda ferðaþjónustu, hin um menningartengda, og hefur niðurstöðum þessarar nefndar verið vísað til Ferðamálaráðs til frekari úrvinnslu. Í öllu þessu starfi er lögð áhersla á þær mörgu auðlindir sem ferðaþjónustan byggir afkomu sína á, ekki síst náttúru og menningu landsins.

Hvað varðar áhrif ferðaþjónustunnar á umhverfi, menningu og náttúrufar hefur verið unnið að rannsóknum undanfarin þrjú ár á vegum Ferðamálaráðs. Einnig eru komnar út niðurstöður Ferðamálaseturs Íslands um þolmörk ferðamennsku í þjóðgarðinum í Skaftafelli.

Á starfstíma mínum sem ráðherra ferðamála hef ég lagt mikla áherslu á aukna fræðslu og umhverfisvitund, m.a. með eflingu upplýsingamiðstöðva um land allt, enda gegna stöðvarnar lykilhlutverki við upplýsingagjöf og fræðslu sem birtist í bættri umgengni ferðamanna um landið. Samgrn. hefur einnig komið að uppbyggingu og rekstri fræðslu- og gestastofu með stuðningi og samningi við Geysisstofu í Haukadal og Snorrastofu í Reykholti. Þá hefur Ferðamálaráð gefið út leiðbeiningar um merkingu og lagningu göngustíga í samvinnu við fjölda aðila.

Á áningarstöðum Vegagerðarinnar eru upplýsingar til ferðamanna og reglur um umgengni. Umhverfisfræðsla er orðin hluti af námi í ferðaþjónustu hér á landi en eins og kunnugt er hefur þeim menntastofnunum sem bjóða upp á ferðamálafræði fjölgað mjög undanfarin ár. Umhverfisfræðsla er einnig hluti af náttúrufræðikennslu í grunnskólum. Í erlendu kynningarefni Ferðamálaráðs er ávallt minnt á mikilvægi góðrar umgengni um náttúru.

Samþætting ferðaþjónustu og náttúruverndar hefur verið stóraukin, m.a. með þátttöku Ferðamálaráðs í umhverfismálum. Má þar nefna úrbætur á fjölsóttum ferðamannastöðum, ráðgjöf og fræðsluútgáfu ýmiss konar. Skýrsla um tillögur að úrbótum á fjölsóttum ferðamannastöðum frá 1995 er grunnur að forgangsröðun verkefna en hún hefur verið endurskoðuð tvisvar af fulltrúum Ferðamálaráðs, Náttúruverndar ríkisins og Vegagerðinni.

Stórauknu fé hefur verið veitt til umhverfismála ferðaþjónustunnar á vegum samgrn. Frá útgáfu framkvæmdaáætlunar hefur alls 172,8 millj. kr. verið veitt til úrbóta á fjölsóttum ferðamannastöðum og hefur verið unnið að úrbótum á tugum ferðamannastaða á þessum tíma, og um 100 aðrir styrkir veittir vegna umhverfisverkefna.

Hvað varðar framkvæmd laga og reglugerða heyra eingöngu lög um skipulag ferðamála undir samgrn. og er framkvæmd þeirra virk.

Varðandi aðgengi fatlaðra að ferðamannastöðum hefur verið töluvert unnið innan ferðaþjónustunnar að því enda hafa þeir sem starfa að ferðamálum gert sér æ betur grein fyrir mikilvægi þess að höfða jafnt til allra. Sem dæmi um það sem gert hefur verið má nefna að Ferðaþjónusta bænda hefur verið í samstarfi við Sjálfsbjörgu um aðgengi að gististöðum á þeim stöðum sem þeir aðilar reka.