Sjálfbær ferðamennska og umhverfisvernd

Miðvikudaginn 13. nóvember 2002, kl. 15:58:38 (1401)

2002-11-13 15:58:38# 128. lþ. 29.10 fundur 123. mál: #A sjálfbær ferðamennska og umhverfisvernd# fsp. (til munnl.) frá samgrh., ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 128. lþ.

[15:58]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Það er ánægjulegt að heyra hvað margt er að gerast á sviði ferðaþjónustunnar sem lýtur að sjálfbærri ferðamennsku og umhverfisvernd. En það má alltaf um bæta og ef við ætlum að halda áfram að fá fleiri ferðamenn til landsins og byggja á ferðaþjónustunni öfluga atvinnugrein þurfum við að standa vörð um náttúru landsins. Hún er auðlegðin okkar. Við þurfum að virða hana og við þurfum að byggja alla uppbyggingu í ferðaþjónustunni á náttúruvernd og sjálfbærri þróun.

En þótt margir góðir hlutir séu að gerast verðum við að standa vörð um ímynd landsins og þá þýðir lítið að keyra hér áfram stóriðjustefnu og virkjanaáform sem brjóta niður þá ímynd sem við reynum að hlúa að á öðrum sviðum.

Ég vil draga hér fram f-liðinn, um gott aðgengi fyrir fatlaða sem víðast --- það verður að vera inni í hugtakinu ,,sjálfbær þróun`` í ferðaþjónustu.