Stafrænar sjónvarps- og útvarpssendingar

Miðvikudaginn 13. nóvember 2002, kl. 17:25:27 (1414)

2002-11-13 17:25:27# 128. lþ. 29.13 fundur 211. mál: #A stafrænar sjónvarps- og útvarpssendingar# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi ÞKG
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 128. lþ.

[17:25]

Fyrirspyrjandi (Þorgerður K. Gunnarsdóttir):

Herra forseti. Lengi hefur verið rætt um stafrænar sjónvarpssendingar, hvenær þær komi til skjalanna á Íslandi. Ég veit að m.a. í Ríkisútvarpinu hefur verið unnin mikil undirbúningsvinna hvað þetta atriði varðar og þeirri nýju tækni hafa m.a. Danir og Svíar reynt að koma í gegn. Þeir hafa reyndar farið mismunandi leiðir en lengi vel var meginvandamálið viðtækjavandamál, þ.e. ekki voru til viðeigandi tæki til að taka á móti digital-tækninni en nú eru þau komin til skjalanna og nú er hægt að fá þau víðs vegar um Evrópu.

Helstu kostir digital eru að á einum sendi komast fyrir fjórar til fimm sjónvarpsútsendingar og um sex útvarpsútsendingar að mér skilst, en hér á landi höfum við aðallega rætt um að einblína á sjónvarpið. Við verðum að mínu mati að taka þá ákvörðun að byggja ekki lengur þetta dýra og kostnaðarsama analog-kerfi eða hliðræna kerfi sem m.a. Ríkisútvarpið byggir á, heldur að fara í digital-umhverfið þar sem þetta tvöfalda kerfi, sem yrði þá um tíma, væri allt of kostnaðarsamt. Svíar hafa m.a. sagt að einn helsti ábatinn af því að fara í digital-umhverfið sé að þá er lokað á analog-kerfið.

Ég geri ráð fyrir að hér eins og annars staðar verði þetta samspil þriggja kerfa, jarðnets, kapalkerfis og gervitungladreifingar, og það er sérstaklega hægt að skoða gervitungladreifingar og jarðdreifingar eða jarðnetið til þess að spara umtalsverðar fjárhæðir. Það skiptir líka miklu máli að þeir sem reka sjónvarpsþjónustu í dag eigi greiðan aðgang að digital-kerfinu. Í Danmörku var valin sú leið að einkafyrirtæki reisi þetta, fjármagni og leigi tækni til stöðvanna. Í Noregi hafa TV2 og NSK sótt saman um leyfi til að stofna og reka slík fyrirtæki.

Þegar farið verður út í þessa nýju tækni, digital-tæknina, þarf að tryggja þeim sem kaupa þá tækni, þ.e. ljósvakamiðlunum, aðgang að hönnun og skipulagningu, því að þekking þeirra er náttúrlega gríðarlega mikil sem hafa nýtt sér þessa þjónustu, svo að þeir geti komið á einn eða annan hátt að þessu ferli. Það þarf að skilgreina þetta ferli vel þannig að sá sem fer út í rekstur á ,,DAB-inu`` eða digital-kerfinu komi einfaldlega ekki með opinn tékka á þann sem er að kaupa þjónustuna, ljósvakafjölmiðlunum, því að við vitum að sá tékki kemur til með að enda hvergi annars staðar en á neytendum sjálfum.

Með digital verða ekki einungis gæðin meiri og betri fyrir neytendur, heldur er einnig hægt að bjóða upp á meira efni og koma meira efni til neytenda. Þetta er ekki síður þeim til hagsbóta sem þessi tækni er nauðsynleg og er að ryðja sér til rúms. Þess vegna hef ég lagt fram þessa fyrirspurn til hæstv. ráðherra.