Stafrænar sjónvarps- og útvarpssendingar

Miðvikudaginn 13. nóvember 2002, kl. 17:33:21 (1417)

2002-11-13 17:33:21# 128. lþ. 29.13 fundur 211. mál: #A stafrænar sjónvarps- og útvarpssendingar# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 128. lþ.

[17:33]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Ég tek undir það að stafræn tækni er mjög mikilvæg vegna þess að bæði er um meiri gæði í útsendingu að ræða og meiri afkastagetu, flutningsgetu. Það hefur hins vegar vakið athygli mína að sjónvarpsfyrirtækin hafa ekki sýnt þessu mjög mikinn áhuga satt að segja. Frumkvæðið í þessu máli hefur allt komið frá ráðuneytinu og eftir að Póst- og fjarskiptastofnun vann skýrsluna sem ég nefndi í svari mínu hefur komist skriður á þetta mál. Ég vonast eftir því að sjónvarpsfyrirtækin herði á sínum þætti málsins því að allt er þetta gert í þágu viðskipta og þjónustu sem sjónvarpsstöðvarnar þurfa á að halda þannig að þetta er mjög í þágu þeirra, en auðvitað fyrst og síðast í þágu neytenda.