Póst- og fjarskiptastofnun

Miðvikudaginn 13. nóvember 2002, kl. 17:41:59 (1420)

2002-11-13 17:41:59# 128. lþ. 29.14 fundur 217. mál: #A Póst- og fjarskiptastofnun# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi ÞKG
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 128. lþ.

[17:41]

Fyrirspyrjandi (Þorgerður K. Gunnarsdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. samgrh. fyrir svarið. Að mörgu leyti skil ég afstöðu hans, sérstaklega með tilvísun í Eftirlitsstofnun EFTA. Ég er líka sammála því sem kom fram í máli hæstv. ráðherra, að fjarskipta- og upplýsingamál skipta miklu máli en að við stefnum að því að almennar leikreglur gildi um þann markað eins og annan markað. Í raun er ekkert því til fyrirstöðu að fyrirtæki á fjarskiptamarkaði leiti til Samkeppnisstofnunar einfaldlega út af því að hún er stærri og svo virðist vera að skjótari svör komi þaðan.

Ég velti því líka fyrir mér hvort það sé fyrirstaða í þessu máli, þ.e. að sameina þessar stofnanir út af þessum öfluga samkeppnisþætti, að þær falla hvor undir sitt ráðuneytið.

Síðan kasta ég því fram svona nokkuð óábyrgt að ef huga ætti að því að sameina Póst- og fjarskiptastofnun og Samkeppnisstofnun, hvort til að mynda tækniþáttur Póst- og fjarskiptastofnunar gæti þá farið til Löggildingarstofu t.d. Það er hugsanlega einn möguleiki sem hægt væri að skoða.

Ég skil svar hæstv. ráðherra og þakka fyrir það. Engu að síður tel ég að við eigum að stefna að því að minnka umfang þessara eftirlitsaðila. Við eigum að reyna að gera þetta skilvirkt og efla þá eftirlitsaðila sem eru til staðar á markaðnum, þ.e. með því að efla samvinnu milli Póst- og fjarskiptastofnunar og Samkeppnisstofnunar og helst með því að sameina samkeppnisþætti þessara stofnana.