Vegagerð og umferð norður Strandir

Miðvikudaginn 13. nóvember 2002, kl. 17:52:45 (1424)

2002-11-13 17:52:45# 128. lþ. 29.15 fundur 219. mál: #A vegagerð og umferð norður Strandir# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi JB
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 128. lþ.

[17:52]

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. samgrh. svörin þó að þau séu nokkuð mögur. Í fyrsta lagi varðandi veginn norður Strandir að Hólmavík þar sem hæstv. ráðherra sagði að beðið væri áætlunar um það hvort valin yrði önnur leið og sú framkvæmd gæti verið á áætlun 2007--2010, þá er það býsna langur tími. Ég held að þó svo valin verði önnur leið eða viðbótarleið norður Strandir, þá eigi það ekki að hafa áhrif á þær framkvæmdir, að eðlilegt og bundið slitlag komi á veginn þarna norður. Við erum líka að tala um ein sex, átta eða tíu ár. Það er langur tími og ég vildi óska eftir því að hæstv. ráðherra endurskoðaði þetta og skoðaði möguleika á því að þarna væri betur búið að.

Varðandi veginn norður Strandir, norður um Kaldrananeshrepp og Árneshrepp, þá er það mín skoðun að það eigi að vera með sérstakar fjárveitingar í það verkefni. Sá vegur er alveg sérstæður í byggðum á landinu. Þarna er vegur fram í byggð sem ekki á sér aðra samgöngumöguleika á landi en þessa og ég tel að það eigi að vinda sér í sérstakt átak til að ljúka þokkalega með vel uppbyggðum malarvegi þarna norður. Ekki að vera að klípa af einhverjum minni háttar fjárveitingum sem eigi að dreifast til minni kafla. Þarna er um vegtengingu og vegasamband við byggð og byggðarlag sem virkilega er þörf á að fái betra vegasamband. Það er því tillaga mín að þetta verði sérstök framkvæmd og tekið á þessu sérstaklega og fyrr.