Fjárhagsleg staða fyrirtækja í ferðaþjónustu

Miðvikudaginn 13. nóvember 2002, kl. 17:59:21 (1427)

2002-11-13 17:59:21# 128. lþ. 29.16 fundur 252. mál: #A fjárhagsleg staða fyrirtækja í ferðaþjónustu# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 128. lþ.

[17:59]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Spurt er hvort til sé yfirlit yfir fjárhagsstöðu fyrirtækja í ferðaþjónustu, þar með talinna aðila sem bjóða upp á gistingu og afþreyingu fyrir ferðamenn. Eftir því sem næst verður komist er slíkt heildaryfirlit ekki til. Samkvæmt upplýsingum frá hagsmunasamtökum fyrirtækja í ferðaþjónustunni, SAF, hafa þau ekki tekið saman slíkt yfirlit hvað varðar fjárhagsstöðu félagsmanna sinna sem eru rúmlega 300 um allt land. Þjóðhagsstofnun hafði tekið saman yfirlit yfir afkomu og fjárhagsstöðu fyrirtækja undanfarin ár og liggja þær upplýsingar fyrir fyrir árið 2000. En þær upplýsingar gefa ekki yfirlit eða sundurliðun um einstök landsvæði.

Þær upplýsingar sem Þjóðhagsstofnun tók saman voru fyrir 303 fyrirtæki í ferðaþjónustu en samkvæmt gagnagrunni Ferðamálaráðs eru rekstraraðilar í ferðamannaþjónustu alls 867. Upplýsingar Þjóðhagsstofnunar ná því ekki nema til hluta fyrirtækja og rekstraraðila í greininni. Erfitt getur verið fyrir opinbera aðila að krefjast allra þeirra viðskiptalegu upplýsinga frá einkafyrirtækjum og einstaklingum sem sinna þjónustu við ferðamenn sem gefi heildarmynd af fjárhagsstöðu fyrirtækja í ferðaþjónustu, bæði á landsvísu og í einstökum landshlutum. Stafar þetta einnig af eðli starfseminnar sem er oft í mjög litlum fyrirtækjum og nokkuð er um fyrirtæki í blönduðum atvinnurekstri, t.d. landbúnaði og ferðaþjónustu.

Í öðru lagi spyr hv. þm.: ,,Mun ráðherra beita sér fyrir því að gerð verði vönduð úttekt á þessum málum?`` Ég hef farið fram á það við Ferðamálaráð að það skilgreini nauðsyn slíkrar úttektar og komi með tillögur að því hvernig best verði að henni staðið svo að fram komi skýrar og sambærilegar upplýsingar á milli fyrirtækja. Ég tel að það sé afar gagnlegt að láta fara ofan í þetta og ferðamálastjóri mun vinna að þeirri skoðun.

Í þriðja lagi spyr hv. þm.: ,,Kemur til greina að ríkisvaldið beiti sér fyrir endurfjármögnun og skuldbreytingum í ferðaþjónustunni til að styrkja atvinnugreinina?`` Í ráðuneytinu er nú unnið að breytingum á lögum um skipulag ferðamála sem miðar að breytingum á hlutverki Ferðamálasjóðs. Ég tel nauðsynlegt að Byggðasjóður taki enn frekar en nú er að sér það hlutverk að veita ferðaþjónustunni á landsbyggðinni lánafyrirgreiðslu til fjárfestinga og gera henni kleift að nálgast fjármagn á betri kjörum en hingað til hefur verið mögulegt. Jafnframt verði aðrar lánastofnanir hvattar til að sinna þessari vaxandi atvinnugrein betur en nú er enda er nauðsynlegt að aðgengi að lánsfjármagni fyrir arðbær fyrirtæki á þessu sviði sé gott. Hvað endurfjármögnun og skuldbreytingar varðar þá er ekkert slíkt í farvatninu fyrir greinina í heild en að sjálfsögðu þarf að skoða þau mál sem upp koma og meta raunverulega nauðsyn svo róttækra ráðstafana.