Fjárhagsleg staða fyrirtækja í ferðaþjónustu

Miðvikudaginn 13. nóvember 2002, kl. 18:04:10 (1429)

2002-11-13 18:04:10# 128. lþ. 29.16 fundur 252. mál: #A fjárhagsleg staða fyrirtækja í ferðaþjónustu# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi JB
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 128. lþ.

[18:04]

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin og fagna því að hann skuli hafa beint tilmælum til Ferðamálaráðs um að kanna stöðuna, eigna-, skulda- og fjárhagsstöðu fyrirtækja í ferðaþjónustu.

Ég vil ítreka það sem sagt hefur verið um vandann sem steðjar að þessari grein. Þetta er ný og ung grein sem þarf bæði að byggja sig upp verkefnalega og markaðslega. Aðrar atvinnugreinar í landinu, tökum þessar hefðbundnu svo sem landbúnað, fiskveiðar og annan slíkan iðnað, búa að langri hefð hvað varðar eignir, eigið fé og marksstarf. Þessi grein er ný. Þess vegna er afar mikilvægt að ríkisvaldið komi með almennum hætti að því að styrkja grunninn fyrir uppbyggingu þessa atvinnuvegar.

Ég dró líka fram, herra forseti, vanda þeirra sem vinna að afþreyingar- og þjónustuiðnaði. Það er mikilvægur þáttur í þjónustu við ferðamenn en þær greinar geta ekki fengið lán. Lán eru háð því að hægt sé að veðsetja einhverjar fasteignir fyrir þeim. En einmitt þessi grein ferðaþjónustunnar er einn mikilvægasti þátturinn í að byggja upp atvinnugreinina. Hún á ekki aðgang að lánsfjármagni af því að hún hefur ekkert að veðsetja.

Það eru margar hliðar á þessu máli, herra forseti, þessum stóriðnaði, stóriðju sem við horfum á til framtíðar. Hún er sársvelt, skortir fé og grunnstuðning. Þær 500 eða 600 millj. sem veittar eru af opinberu fé til þess að styrkja starfsgrundvöllinn með ýmsum hætti eru náttúrlega hverfandi upphæðir miðað við hve stór þáttur þessi atvinnugrein er í þjóðarbúskapnum. Við bindum við hana miklar væntingar en hún er að byggja sig upp frá grunni.

Ég legg því áherslu á, herra forseti, að á þessum málum verði tekið mun fastar en hingað til.