Fjárhagsleg staða fyrirtækja í ferðaþjónustu

Miðvikudaginn 13. nóvember 2002, kl. 18:06:26 (1430)

2002-11-13 18:06:26# 128. lþ. 29.16 fundur 252. mál: #A fjárhagsleg staða fyrirtækja í ferðaþjónustu# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 128. lþ.

[18:06]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Hvað er grunnstuðningur við íslenska ferðaþjónustu? Það mætti raunar halda langa ræðu um það, af því tilefni sem hv. þm. Jón Bjarnason nefndi hér. Grunnstuðningur við íslenska ferðaþjónustu er t.d. að tryggja innanlandsflug á Íslandi, tryggja meginmiðstöð innanlandsflugs á Reykjavíkurflugvelli. Með því að standa við bakið á þeim sem vilja byggja upp Reykjavíkurflugvöll gætu menn stuðlað að þessum grunnstuðningi íslenskrar ferðaþjónustu m.a. Hv. þm. mætti minnast þess þegar hann á fundi með sínu fólki sem stýrir Reykjavíkurborg.

Grunnstuðningur er m.a. uppbygging vegakerfisins. Við leggjum mjög mikið upp úr því að bæta vegakerfið á Íslandi. Það styrkir auðvitað stöðu íslenskrar ferðaþjónustu. Við leggum mikla fjármuni í markaðsaðgerðir, uppbyggingu fjölfarinna ferðamannastaða o.s.frv. Þannig er verið að gera mjög margt.

Hv. 1. þm. Austurl., Jónas Hallgrímsson, kom einmitt inn á meginviðfangsefni íslenskrar ferðaþjónustu í dag, þ.e. að lengja þann tíma sem við fáum ferðamenn til að koma hingað og kaupa þjónustu. Það er hið stóra viðfangsefni sem samtök ferðaþjónustunnar og ríkisvaldið hafa staðið sameiginlega að og varðar markaðssetningu landsins. Ég legg mikla áherslu á að reyna, með þeim aðgerðum sem Ferðamálaráð og samgrn. í samstarfi við samtök ferðaþjónustunnar vinna að, að ná fleiri ferðamönnum til landsins með sérstökum markaðsaðgerðum sem komi utan háannatímans yfir sumarið. Ef okkur tekst það þá mun hagur íslenskrar ferðaþjónustu batna.