Upplýsingamiðstöðvar í ferðaþjónustu

Miðvikudaginn 13. nóvember 2002, kl. 18:18:14 (1434)

2002-11-13 18:18:14# 128. lþ. 29.17 fundur 253. mál: #A upplýsingamiðstöðvar í ferðaþjónustu# fsp. (til munnl.) frá samgrh., ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 128. lþ.

[18:18]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með þeim sem hér hafa talað um nauðsyn á eflingu þeirrar starfsemi sem fer fram hjá upplýsingamiðstöðvum ferðamála. Það eru örfá ár síðan ríkið byrjaði að styrkja þá starfsemi úti á landi, hafði styrkt hana í mörg ár t.d. í Keflavík og á höfuðborgarsvæðinu. Ég tel að upplýsingamiðstöðvarnar séu algjör lykill að því að ná þeirri samhæfingu í ferðaþjónustunni sem er algjörlega nauðsynleg, þ.e. hvað varðar kynningu á svæðunum, svæðisbundið, og landsfjórðungum sem er nauðsynlegt öllum ferðamönnum, og sérstaklega hvað varðar breytinguna í ferðamennskunni þar sem við erum farnir að fá einkaferðamennsku í ríkari mæli frá hópferðamennsku. Þar þarf upplýsingar og samhæfða upplýsingagjöf og þar gegna þessar miðstöðvar lykilhlutverki. Ég tel það ákaflega mikilvægt að við bakið á þessari starfsemi verði stutt og hún verði efld um allt land.