Upplýsingamiðstöðvar í ferðaþjónustu

Miðvikudaginn 13. nóvember 2002, kl. 18:19:18 (1435)

2002-11-13 18:19:18# 128. lþ. 29.17 fundur 253. mál: #A upplýsingamiðstöðvar í ferðaþjónustu# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi JB
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 128. lþ.

[18:19]

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og þeim hv. þm. Árna Steinari Jóhannssyni og Jónasi Hallgrímssyni fyrir gott innlegg í umræðuna.

Fram kom hjá hæstv. ráðherra að þátttaka hins opinbera í rekstri hinna einstöku upplýsingamiðstöðva er í sjálfu sér ekki í neinum föstum samningi eða föstu formi, hverjir eigi að fá fjármagn og hverjir ekki og hversu mikið, rökin fyrir því af hverju Höfn í Hornafirði fær 500 þúsund, af hverju Varmahlíð fær ekkert o.s.frv. En ég gleðst þó yfir því, herra forseti, að bæði hæstv. ráðherra og þeir aðrir sem hér hafa tekið þátt í umræðunni hafa lagt áherslu á mikilvægi upplýsingamiðstöðvanna og að þær verði fastur punktur í þróun ferðaþjónustunnar. Einn mikilvægasti þáttur í því er að þar geti skapast stöðugleiki, öryggi til nokkurra ára í rekstri þeirra. Um þær þarf því að gera rekstrarsamninga, fjármögnunarsamninga til nokkurs tíma þannig að hægt sé að tryggja starfskrafta hjá mörgum þeirra yfir allt árið svo að hægt sé að byggja þetta upp. Þannig er t.d. hægt að efla einmitt heilsársferðaþjónustu eða lengja ferðaþjónustutímann. Þessar upplýsingamiðstöðvar gegna einmitt lykilhlutverki hvað það varðar og þær verða náttúrlega aldrei betri en það starfsfólk sem þar vinnur.

Ég vil, herra forseti, líka hvetja til þess að þeim áherslum verði sýndur staður í fjárlögunum næstu. Fjárveitingar til þessara upplýsingamiðstöðva hafa staðið í stað á undanförnum árum í óbreyttri krónutölu og samkvæmt frv. fyrir næsta ár eru þær áfram í óbreyttri krónutölu. En miðað við orð hæstv. ráðherra, sem ég fagna og tek alveg undir, að þetta starf þurfi að efla og styrkja, þá treysti ég því að hann leggist á árar með að veita aukið fjármagn til þessara upplýsingamiðstöðva og tryggja stöðu þeirra.