Reykjanesbraut

Miðvikudaginn 13. nóvember 2002, kl. 18:24:21 (1437)

2002-11-13 18:24:21# 128. lþ. 29.18 fundur 265. mál: #A Reykjanesbraut# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 128. lþ.

[18:24]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Við gerð vegáætlunar fyrir tímabilið 2000--2004 var rætt um að sá háttur yrði á hafður við breikkun Reykjanesbrautar frá Kópavogi til Hafnarfjarðar að áfangaskipta verkinu þannig að fyrsti áfangi að norðan næði að gatnamótum Arnarnesvegar og gatnamótamannvirki byggð jafnframt. Næsti áfangi yrði svo breikkun vegarins að Vífilsstaðavegi ásamt gatnamótamannvirkjum þar. Síðasti áfanginn yrði síðan breikkun sunnan Vífilsstaðavegar.

Við endurskoðun vegáætlunar fyrir árið 2002 sl. vetur kom fram sú hugmynd að betri nýting fjármagns fengist með því að breikka allan kaflann fyrst og gera mislægu gatnamótin síðar.

Í tillögum forsvarsmanna sveitarfélaganna að forgangsröðun framkvæmda fyrir vegáætlun 2002--2006 og langtímaáætlun til 2014 sem lagðar voru fyrir Vegagerðina í febrúar 2002 er þessi framkvæmdaröð lögð til grundvallar, þ.e. að kaflinn verði allur breikkaður fyrst en mislæg gatnamót verði gerð síðar. Í þeim tillögum var að vísu gert ráð fyrir mun meira fjármagni en verið hefur í vegáætlun en engu að síður var tillagan um röðina þessi.

Með hliðsjón af þessu má segja að það hafi verið samdóma álit sveitarfélaganna og Vegagerðarinnar að þessi röð framkvæmda væri skynsamlegri en hin fyrri. Ástæðan er einkum sú að með þeirri röð sem nú er miðað við fær umferðin fyrr en ella tvær akreinar til umráða á öllum kaflanum, en það dregur úr töfum umferðarinnar og gerir hana greiðari. Á móti kemur að heildarkostnaður mannvirkja verður að lokum nokkuð hærri vegna þess að gatnamótamannvirkjunum er frestað. Með hliðsjón af því mikla umferðarmagni sem er á þessum kafla Reykjanesbrautar, þar sem eru 20 þús. bílar á dag, verður að telja þeim aukna kostnaði vel varið við þá framkvæmd.