Reykjanesbraut

Miðvikudaginn 13. nóvember 2002, kl. 18:27:57 (1439)

2002-11-13 18:27:57# 128. lþ. 29.18 fundur 265. mál: #A Reykjanesbraut# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 128. lþ.

[18:27]

Fyrirspyrjandi (Þórunn Sveinbjarnardóttir):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. samgrh. svörin en vil þó bæta við spurningunni um það hvenær þessar ráðagerðir hafa verið kynntar sveitarfélögunum. Hæstv. samgrh. sagði áðan í svari sínu að það væri samdóma álit sveitarfélaganna og Vegagerðarinnar að svona ætti þetta að vera. Samkvæmt mínum upplýsingum, hæstv. forseti, þá er það ekki þannig og ég mundi mjög gjarnan vilja vita hvenær nákvæmlega þessar ráðagerðir voru kynntar sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu. Er það svo að hæstv. samgrh. álítur að það sé samdóma álit bæjarstjórnanna á svæðinu að þetta sé í lagi? Það er ekki skilningur minn á ályktunum sem þingmenn Reykjaneskjördæmis hafa fengið, m.a. frá bæjarstjórninni í Garðabæ.

Ef það verður úr að þetta er niðurstaðan, herra forseti, þá vil ég gjarnan vita hvenær á að leggja mislæg gatnamót, og ekki síst með tilliti til öryggis vegfarenda, eins og hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir benti á. Hvenær er það á dagskránni hjá hæstv. samgrh. ef fyrst á að tvöfalda og síðan einhvern tíma í framtíðinni að setja mislæg gatnamót á Reykjanesbrautina?