Hljóðvist

Miðvikudaginn 13. nóvember 2002, kl. 18:34:35 (1442)

2002-11-13 18:34:35# 128. lþ. 29.19 fundur 266. mál: #A hljóðvist# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 128. lþ.

[18:34]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Í 20. gr. vegalaga er fjallað um þjóðvegi í þéttbýli og skiptingu kostnaðar milli ríkis og sveitarfélaga, eins og fram kom hjá hv. fyrirspyrjanda.

Greinin hljóðar þannig:

,,Þar sem þjóðvegur liggur um þéttbýli skal við það miðað við gerð vegarins að til vegagerðarkostnaðar teljist aðeins sá kostnaður sem til fellur vegarins vegna, en þann kostnað, sem sérstaklega er til kominn vegna þéttbýlisins, svo sem við holræsi, færslur á lögnum, hjólreiða- og göngustíga og því um líkt, greiði viðkomandi sveitarfélag.``

Þó að hljóðvist sé ekki sérstaklega nefnd í greininni verður að líta svo á að kostnaður við hana falli undir þann kostnað sem sérstaklega er til kominn vegna þéttbýlisins. Hafa ber einnig í huga að sveitarfélög fara með skipulagsvald í mjög ríkum mæli og eðlilegt að ábyrgð fylgi valdi í þessum efnum eins og öðrum. Það er mikilvægt að það fari saman.

Það er einkum á höfuðborgarsvæðinu sem kröfur um hljóðvist leiða til aukins kostnaðar við vegagerð. Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni hefur hún í samskiptum við sveitarfélögin þar túlkað 20. gr. eins og hér var gerð grein fyrir. Ég lít svo á að greinin verði ekki túlkuð á annan máta og hef því ekki gert athugasemdir við framgöngu Vegagerðarinnar í þessum efnum. Þetta er mitt svar.

En vegna þess að ég hef rúman tíma til að tala hér í þessu svari mínu má ég til með að segja frá því, í tengslum við þessa fyrirspurn, að ekki alls fyrir löngu var ég á málstofu í háskóla einum í Norðurárdalnum í Borgarfirði. Þá fékk ég spurningu sem snerist um það hvort ég gæti ekki sem samgrh. komið í veg fyrir þann hávaða sem stafaði frá þjóðveginum þegar stórflutningabílar og önnur umferð færi um þjóðveg 1 og truflaði friðsæld í sveitinni. Það er víða ónæði og af mörgu að taka í því, ég tala nú ekki um hér í þéttbýlinu. Mér er alveg ljóst að umferðinni fylgir ónæði og hávaði sem þarf að taka tillit til og þá einmitt kemur til kasta sveitarfélaga og sérfræðinga í skipulagsmálum að horfa til framtíðar þegar byggðin er sett niður og gera ráð fyrir þeim nauðsynlegu umferðarmannvirkjum sem óhjákvæmilegt er að byggja þéttbýlisins vegna.