Hljóðvist

Miðvikudaginn 13. nóvember 2002, kl. 18:38:45 (1444)

2002-11-13 18:38:45# 128. lþ. 29.19 fundur 266. mál: #A hljóðvist# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 128. lþ.

[18:38]

Fyrirspyrjandi (Þórunn Sveinbjarnardóttir):

Hæstv. forseti. Það er rétt, þetta er vandamál sem verður að leysa. Og það er auðvitað þannig að hér á suðvesturhorninu hefur umferðarþunginn vaxið gríðarlega á síðustu árum og áratugum, og eftir vegum eins og Hafnarfjarðarveginum hefur hann margfaldast. Það er ekki hægt að velta því þannig yfir á sveitarfélögin, herra forseti, að þau hafi bara ekki skipulagt alveg rétt. Við erum að fást við vanda sem var ekki endilega fyrirsjáanlegur fyrir 20--30 árum. Og svo hangir saman við þetta að fólk gerir auknar kröfur um minni mengun frá umferðinni. Það er náttúrlega ýmislegt sem kemur af því, t.d. er ljóst að þegar flestir landsmenn setja nagladekkin undir bílana sína á veturna stóreykst hávaðamengunin á höfuðborgarsvæðinu. Það er algjörlega dagljóst. Og við vitum líka að ef við bættum almenningssamgöngur mundi umferðin almennt minnka, og ekki bara hún sjálf heldur jafnframt hávaðinn af henni.

Eftir stendur, herra forseti, að þetta er spurning um túlkun á lagagrein. Vegagerðin sem greiðir fyrir lýsingu og regnvatnslagnir, og girðingu eins og hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir kom inn á, hlýtur að þurfa --- ríkisvaldið hlýtur að þurfa að íhuga hvort það sé óeðlilegt að koma hljóðvistinni þannig fyrir á þjóðvegum í þéttbýli að búandi sé í námunda við þá.