Rannsóknarsetur að Kvískerjum

Miðvikudaginn 13. nóvember 2002, kl. 18:48:20 (1447)

2002-11-13 18:48:20# 128. lþ. 29.21 fundur 199. mál: #A rannsóknarsetur að Kvískerjum# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 128. lþ.

[18:48]

Fyrirspyrjandi (Þuríður Backman):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Það er mikilvægt að ljúka þessu máli hið fyrsta og það er mikilvægt að ljúka því í fullri sátt og sérstaklega fullri sátt við heimamenn. En það er rétt að aðstæður hafa breyst í sveitarfélaginu. Það var alltaf meiningin að bæði ríkið og sveitarfélagið rækju þetta rannsóknarsetur þannig að með Nýheimum og þeim rannsóknum og Jöklasetri sem komið er upp á Höfn í Hornafirði hafa forsendur sannarlega breyst og eins er mikið gistirými á svæðinu.

En í mínum huga skiptir mestu máli að ná sáttum í þessu máli. Rannsóknarsetrið og fræðasetrið hafði sannarlega vakið væntingar hjá mörgum og það var afleitt að svo lengi skyldi dragast að afgreiða þetta mál. Það á sérstaklega við um ábúendur Kvískerja, þ.e. að vekja upp slíkar hugmyndir og væntingar og ljúka svo ekki málinu. Ég styð því og hvet hæstv. ráðherra í vinnu hennar til að ganga sem fyrst frá þessu máli.

Þar sem þessi ákvörðun hefur verið tekin í samráði við ábúendur þá er mikilvægt að rausnarlega verði staðið að rannsóknum á svæðinu t.d. hvað varðar framlög til rannsóknanna. Hér voru nefndar 24 millj. sem eftir standa af því fé sem búið var að úthluta til rannsóknarsetursins. Eins er mikilvægt að myndarlega verði staðið að kynningu á þeim rannsóknum svo að þær nýtist svæðinu til framdráttar og verði sú upplyfting sem menn binda vonir við. (Forseti hringir.)

Herra forseti. Mig langar til að segja eina setningu enn. Okkur ber öllum að þakka starf þeirra Kvískerjasystkina og ég vona að við getum heiðrað lífsstarf þeirra með veglegu framlagi til rannsókna og fræðastarfa.