Atvinnu- og dvalarleyfi útlendinga

Miðvikudaginn 13. nóvember 2002, kl. 18:56:10 (1450)

2002-11-13 18:56:10# 128. lþ. 29.22 fundur 218. mál: #A atvinnu- og dvalarleyfi útlendinga# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 128. lþ.

[18:56]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Síðan nýju útlendingalögin voru samþykkt á Alþingi í vor hefur verið unnið að undirbúningi gildistöku þeirra, sem er um næstu áramót. Vinna að gerð mjög ítarlegrar og margbrotinnar reglugerðar er vel á veg komin og sömuleiðis hefur verið unnið að lausn húsnæðismála Útlendingastofnunar og er hún nú fundin, en við gildistöku laganna fjölgar starfsmönnum við útlendingamálin um tvo og ekki er rými fyrir þá í núverandi húsnæði Útlendingaeftirlitsins.

Þessi tvo verkefni hafa haft forgang og því er ekki hafið það verkefni sem fyrirspurn hv. fyrirspyrjanda fjallar um. Þá hefur einnig verið hugað að fyrirkomulagi íslenskukennslu fyrir útlendinga, en þátttaka í íslenskunámskeiði verður nú skilyrði svokallaðs búsetuleyfis. Meginverkefni Útlendingastofnunar verður að fjalla um mál er varða dvalarleyfi erlends fólks sem hér dvelur við margvísleg störf í atvinnulífinu og skylduliðs þess, en móttaka hælisleitenda er einnig mjög vaxandi viðfangsefni. Fjöldi þeirra hefur tvöfaldast á þessu ári og eru þeir nú komnir á annað hundrað. Horfur eru á að þeim fjölgi enn á næsta ári og er þá miðað við þróunina hér á landi og í löndunum í kringum okkur.

Afgreiðsla atvinnuleyfa er eins og kunnugt er í höndum Vinnumálastofnunar en náið samráð og góð samvinna er í dag milli hennar og Útlendingaeftirlitsins eins og hv. fyrirspyrjandi minntist á áðan. Yfirfærsla á því verkefni yrði allflókið viðfangsefni sem kallar á samráð við aðila vinnumarkaðarins og samkomulag tveggja ráðuneyta. Hefur enn ekki gefist kostur á að hefja viðræður um sameiginlega útgáfu á dvalar- og atvinnuleyfum en hugsanlega mætti finna fleiri en eina lausn á henni. Ég hyggst taka málið upp við hæstv. félmrh. á næstunni.

Ég get tekið undir það með hv. fyrirspyrjanda um leið og ég þakka henni fyrirspurnina að beint liggur við að Útlendingastofnun veiti bæði dvalarleyfi og atvinnuleyfi. Það mundi einfalda allt afgreiðsluferlið og létta umsækjendum lífið.