Tollgæsla í Grundartangahöfn

Miðvikudaginn 13. nóvember 2002, kl. 19:03:34 (1453)

2002-11-13 19:03:34# 128. lþ. 29.23 fundur 238. mál: #A tollgæsla í Grundartangahöfn# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 128. lþ.

[19:03]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir þessa fyrirspurn og ábendingar hans í því sambandi.

Störf tollvarðar í Borgarnesi eru fólgin í tollafgreiðslu skipa sem koma að Grundartanga og í Olíustöðina í Hvalfirði ásamt eftirliti með öllum skipum og áhöfnum þeirra, bæði vegna Schengen-samningsins og tolleftirlits. Einnig hefur tollvörður með höndum skoðun allra gáma sem um Grundartangahöfn fara en þeir voru 3.500 talsins árið 2001.

Einn lögreglumaður í Borgarnesi hefur farið með tollvörsluna á Grundartanga og það hefur verið hans aðalstarf, ásamt eftirliti með tollvörugeymslu í Borgarnesi og vínframleiðslu á staðnum. Honum til aðstoðar á Grundartanga koma svo eftir þörfum aðrir lögreglumenn frá Borgarnesi og einnig starfsmenn tollstjórans í Reykjavík eftir atvikum. Tollvarslan hefur aðstöðu í skrifstofubyggingu Járnblendifélagsins.

Skipakomum hefur fjölgað á Grundartanga á síðustu árum. Þangað komu 151 skip á árinu 1997, 178 skip árið 1998 og 200 skip árið 2001. Það sem af er þessu ári hafa 124 skip verið tollskoðuð á Grundartanga og í Olíustöðinni í Hvalfirði sem bendir reyndar til þess að nokkur fækkun verði á skipakomum þetta árið.

Formleg ráðning viðkomandi einstaklings í stöðu tollvarðar hefur verið til athugunar um nokkurt skeið sem mundi þýða fjölgun lögreglumanna í Borgarnesi um einn. Ekki hefur orðið af því enn þá en það sem nú þrýstir á þessa breytingu er að fyrirtækið sem sér um uppskipun og útskipun fyrir verksmiðjurnar á Grundartanga er að gera skipulagsbreytingar hjá sér og taka upp vaktafyrirkomulag. Það hefur í för með sér að frá 1. febrúar nk. verða skip afgreidd þegar þau koma að landi en ekki aðeins á dagvinnutíma eins og verið hefur. Þetta mun koma til með að valda kostnaðarauka í tollgæslu vegna aukinnar yfirvinnu, eða fjölgun tollvarða og verður að bregðast við því.

Upplýsingar um þessa breytingu eru raunar nýkomnar til ráðuneytisins. Því liggur ekki fyrir hvernig verður við þessu brugðist en m.a. hefur verið haft samband við tollstjórann í Reykjavík um hugsanlega samvinnu í tollgæslu á þessu svæði. Ekki liggur þó fyrir niðurstaða um það. Almennt má svara fyrirspurninni á þann veg að efla þurfi tollgæsluna á Grundartanga og að í það stefnir að svo verði.