Áhrif nýs launakerfis á launamun kynjanna

Miðvikudaginn 13. nóvember 2002, kl. 19:08:35 (1455)

2002-11-13 19:08:35# 128. lþ. 29.24 fundur 320. mál: #A áhrif nýs launakerfis á launamun kynjanna# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., Fyrirspyrjandi DSn
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 128. lþ.

[19:08]

Fyrirspyrjandi (Drífa Snædal):

Herra forseti. Í kjarasamningum sem gerðir voru við opinbera starfsmenn árið 1997 var farin ný slóð dreifstýrðra launaákvarðana sem viðbót við miðstýrða kjarasamninga. Þetta var gert í þeim tilgangi að hægt væri að umbuna starfsmönnum í launum samkvæmt óskilgreindum ákvörðunum forstöðumanna stofnana. Verkalýðshreyfingin skrifaði hikandi undir samningana en sá dreifstýrðar launaákvarðanir sem leið til að stækka launapottinn þrátt fyrir að þær gætu falið í sér mismunun. Sérstaklega voru þær stéttir sem að stórum hluta eru skipaðar konum uggandi, sem sést best á þeirri yfirlýsingu sem fylgdi kjarasamningum m.a. hjúkrunarfræðinga, meinatækna, félagsráðgjafa og fleiri kvennastétta.

Yfirlýsingin hljóðar svo:

,,Það er yfirlýst stefna ríkis og Reykjavíkurborgar að jafna þann launamun karla og kvenna sem ekki er hægt að útskýra nema á grundvelli kyns. Með nýju launakerfi gefst tækifæri til að vinna að þeim markmiðum. Með það í huga munu fjármálaráðherra og Reykjavíkurborg láta á samningstímabilinu gera úttekt á áhrifum nýs launakerfis á launamun karla og kvenna sem starfa samkvæmt nýju launakerfi.``

Í skjóli þessarar yfirlýsingar voru kjarasamningar undirritaðir án fyrirvara og í fullvissu þess að áhrif þeirra yrðu könnuð. Það er skemmst frá því að segja að þessi úttekt hefur ekki farið fram þrátt fyrir margar vísbendingar um það að dreifstýrt launakerfi hafi bitnað á launajafnrétti kynjanna. Þessar vísbendingar koma skýrast fram í könnun um samanburð á launum karla og kvenna hjá Reykjavíkurborg 2001, unninni af Félagsvísindastofnun fyrir Reykjavíkurborg. Þar eru raktar ástæður þess að ekki hefur náðst betri árangur í launajafnrétti en raun ber vitni. Eru helst nefnd til sögunnar kjaraatriði sem ákveðin eru á vinnustöðum, svo sem ákvarðanir um yfirvinnu og akstursgreiðslur, þ.e. dreifstýrðar ákvarðanir.

Svo virðist sem óttinn við áhrif hins nýja launakerfis hafi átt við rök að styðjast eins og reynsla annarra þjóða hefði reyndar getað kennt okkur. Af því sem á undan er rakið sést að með dreifstýringu launa þrífst misrétti sem með einhverjum meðölum verður að vinna á. Útgangspunktur þeirrar vinnu hlýtur að vera úttekt á hinu nýja launakerfi með tilliti til launamunar kynjanna.

Því vil ég spyrja hæstv. fjmrh.:

1. Hvers vegna hefur yfirlýsingum í kjarasamningum opinberra starfsmanna við ríki og Reykjavíkurborg frá 1997 um úttekt á áhrifum nýs launakerfis á launamun karla og kvenna ekki verið fylgt eftir?

2. Hvenær verður hafist handa við að greina áhrifin og hvernig verður það gert?