Áhrif nýs launakerfis á launamun kynjanna

Miðvikudaginn 13. nóvember 2002, kl. 19:17:08 (1458)

2002-11-13 19:17:08# 128. lþ. 29.24 fundur 320. mál: #A áhrif nýs launakerfis á launamun kynjanna# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., Fyrirspyrjandi DSn
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 128. lþ.

[19:17]

Fyrirspyrjandi (Drífa Snædal):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. fjmrh. fyrir svarið og einnig ber að þakka fyrir það framlag ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum sem breytingar á fæðingarorlofi eru svo sannarlega.

Hins vegar er það alvarlegt mál þegar róttækar breytingar á launakerfi hins opinbera gera það að verkum það að hægir á ferlinu til jafnréttis. En sú virðist einmitt vera raunin með því launakerfi sem nú er við lýði. Konur eru orðnar langeygar eftir því að standa jafnfætis körlum og launajöfnuður er algjör forsenda fyrir því að kvenfrelsi náist á vinnumarkaði og á heimilum sem er vonandi markmið okkar allra. Tæknileg atriði og starfaflokkun innan stjórnkerfisins má ekki verða jafnréttinu fjötur um fót.

Ég vil því ítreka við hæstv. fjmrh. nauðsyn þess að hefjast þegar handa við úttekt á áhrifum nýja launakerfisins á laun karla og kvenna svo hægt verði að gera sér grein fyrir vandanum. Þá getum við hafist handa við að leysa vandamálið og vera skrefi nær því að koma á jafnrétti í raun.