Utandagskrárumræða um kræklingarækt

Fimmtudaginn 14. nóvember 2002, kl. 10:31:34 (1460)

2002-11-14 10:31:34# 128. lþ. 30.91 fundur 235#B utandagskrárumræða um kræklingarækt# (aths. um störf þingsins), PBj
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 128. lþ.

[10:31]

Pétur Bjarnason:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs um störf þingsins vegna þess að í tvær vikur hefur legið fyrir beiðni af hálfu Frjálslynda flokksins um að fá utandagskrárumræðu um kræklingarækt á Íslandi sem nú stendur á tímamótum sökum tómlætis stjórnvalda um stuðning. Það hefur gengið illa að fá svör hæstv. sjútvrh. um það hvenær hann gæti verið til svara og í gær tjáði hann mér að hann teldi engin efni til þess að verða við beiðninni né umræðna um málefni kræklingaræktar utan dagskrár og það kæmi ekki til greina.

Herra forseti. Ég leyfi mér að mótmæla harðlega slíkri málsmeðferð og vísa í 50. gr. þingskapa Alþingis um rétt þingmanna til þess að fá mál tekin fyrir utan dagskrár hvort heldur í formi yfirlýsingar eða fyrirspurnar. Þar við bætist að Frjálslyndi flokkurinn hefur ekki verið að troða hér upp daglega með utandagskrárumræður. Þetta er í fyrsta sinn á þessu hausti sem beiðni kemur um það.

Ég hef komið til þings af og til í 15 ár. Allan þann tíma hefur sú hefð verið haldin að varaþingmenn fengju forgang á málum sínum og því hagað svo að þeir fengju að mæla fyrir þeim svo hér kveður við nýjan tón, herra forseti. Þessi beiðni stendur því áfram af hálfu Frjálslynda flokksins og þess er krafist að hæstv. sjútvrh. sinni skyldu sinni og verði hér til svara þegar til þess kemur.

Kræklingarækt er ný grein sem lofar góðu. Hún hentar mjög vel inni í fjörðum og þeir sem stundað hafa tilraunir í þessari grein hafa lagt mikið á sig. En þeir eru nú að gefast upp. Það er full ástæða til að ræða það í þinginu hvort ekki á að styðja þá fáu einstaklinga sem eru að brydda upp á nýmælum á landsbyggðinni, ekki síst á þeim svæðum þar sem stöðugt fækkar atvinnutækifærum og fólki ár frá ári.

Kræklingaræktin liggur þar að auki á milli tveggja ráðuneyta, sjútvrn. og landbrn., og virðist mjög erfitt að fá umræðu og stuðning við greinina, þ.e. um málefni þessarar ungu atvinnugreinar sem ég tel að eigi mikla framtíð fyrir sér ef rétt er á málum haldið. Það gengur mjög erfiðlega að fá málefni hennar rædd á þeim vettvangi þar sem hægt er að fá einhver svör einmitt vegna þessa. Hæstv. ráðherra gat ekki verið hér við í dag en ég átti ekki annars kost en að ræða þetta hér því ég fer út af þingi eftir morgundaginn.