Utandagskrárumræða um kræklingarækt

Fimmtudaginn 14. nóvember 2002, kl. 10:41:57 (1466)

2002-11-14 10:41:57# 128. lþ. 30.91 fundur 235#B utandagskrárumræða um kræklingarækt# (aths. um störf þingsins), HBl
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 128. lþ.

[10:41]

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Þessi síðasta ræða var undarleg fyrir margra hluta sakir. Í fyrsta lagi er hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir ekki kona fyrir þeim ummælum að ég hafi amast við því að varaþingmenn fái mál sín tekin fyrir á Alþingi. Ég kannast alls ekki við að þetta sé satt. Þvert á móti hef ég lagt áherslu á að greiða fyrir því að varaþingmenn fái að ræða sín mál og skil satt að segja ekki hvað hreytingur eins og þessi á að þýða.

Í öðru lagi vil ég taka það fram að við höfum lagt okkur fram um að leyfa hv. þingmönnum að komast að í sambandi við utandagskrárumræður og ég minnist þess ekki að upp hafi komið neinn ágreiningur um það á þessu þingi á milli mín og þingflokksformanna stjórnarandstöðunnar. Ég kannast heldur ekki við það að amast hafi verið við því. Ég hygg að hv. þm. hljóti að fallast á það, ef hún skoðar hug sinn, að ef hv. þm. Pétur Bjarnason hefði lagt fram fyrirspurn með venjulegum hætti þegar hann settist inn á þing þá hefði verið hægt að svara þeirri fyrirspurn í gær eins og þingsköp segja til um og auðvitað hefðum við greitt fyrir því að það hefði gengið fram.

Ég vil líka segja að mér finnst ósanngjarnt þegar því er haldið fram að hugur okkar þingmanna standi ekki til þess að reyna að beita áhrifum okkar til þess að kræklingarækt og önnur slík fiskrækt geti gengið fram. Við höfum auðvitað áhuga fyrir því. En við verðum að fara eftir getu okkar hver og einn. Máttur minn er nú ekki mikill en samt ætla ég að athuga hvað hægt sé að gera í málinu.