Utandagskrárumræða um kræklingarækt

Fimmtudaginn 14. nóvember 2002, kl. 10:45:10 (1468)

2002-11-14 10:45:10# 128. lþ. 30.91 fundur 235#B utandagskrárumræða um kræklingarækt# (aths. um störf þingsins), PBj
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 128. lþ.

[10:45]

Pétur Bjarnason:

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þessa umræðu og ég þakka hv. stjórnarliðum góðar undirtektir við málefni kræklingaræktar. En það er ekki hún sem er til umræðu hér og reyndar ekki heldur undirtektir þingmanna eða forseta þingsins, ég hef svo sem ekkert undan þeim að kvarta, en þetta snýst fyrst og fremst um afstöðu hæstv. sjútvrh., að fást ekki til þess að ræða þetta mál við þingmann. Það er það sem ég er að gera athugasemd við í þinginu og tel ekki við hæfi, vegna þess að ég sé ekki betur á þingsköpum, sem hæstv. sjútvrh. hvatti mig sérstaklega til að lesa. Hann sagði þegar hann neitaði þessari beiðni: ,,Lestu þingsköpin``. Það gerði ég og það er ástæðan fyrir því að ég er kominn hingað upp í dag vegna þess að ástæða var til að lesa þau og þar sá ég þennan rétt þingmanns til að gera slíka fyrirspurn og hún er ótvíræð.

Ég vil leiðrétta hér missögn. Það er ekki rétt að haft hafi verið samband fyrst í gær. Í fyrsta lagi lá fyrirspurnin fyrir fyrir réttum tveimur vikum, á fimmtudegi fyrir tveimur vikum, og vegna þess að hún lá fyrir þegar ég kom inn á þing í byrjun síðustu viku, þá fór ég ekki að bera fram fyrirspurn. Ég vissi ekki annað en þessi beiðni væri gild og góð og um hana var síðan fjallað á fundum þingflokksformanna, þannig að ég fór ekki að leggja fram fyrirspurn þegar ég átti von á utandagskrárumræðu.

Í öðru lagi er ég búinn að vera í stöðugu sambandi við ráðuneyti sjávarútvegsmála síðan á mánudaginn til þess að ná í ráðherrann en það er rétt, hann sjálfur birtist ekki fyrr en í gær. En það var ekki vegna þess að ekki væri reynt að ná í hann. Þvert á móti, það var stöðugt samband við ritarann sem tók mér ljúfmannlega, reyndi það sem hún gat til að koma þeim skilaboðum á framfæri. En beiðnin lá fyrir í tvo daga, beiðni um beint símasamband og talsamband við hæstv. sjútvrh. hefur legið fyrir alla þessa viku þannig að þetta var ekki alveg að koma inn núna heldur var nægilegur fyrirvari.

Að öðru leyti tek ég undir það sem hér hefur komið fram, að full ástæða til þess að þingmenn gæti réttar síns og leiti hans hvenær sem þörf er á.