Málefni Sementsverksmiðjunnar

Fimmtudaginn 14. nóvember 2002, kl. 10:47:26 (1469)

2002-11-14 10:47:26# 128. lþ. 30.92 fundur 236#B málefni Sementsverksmiðjunnar# (aths. um störf þingsins), JB
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 128. lþ.

[10:47]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs um störf þingsins út af málefnum Sementsverksmiðjunnar en sl. þriðjudag voru til umræðu tillögur okkar hv. þm. Árna Steinars Jóhannssonar um málefni Sementsverksmiðjunnar á Akranesi.

Ég vil upplýsa þingið um að í gær var að frumkvæði Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs haldinn kynningarfundur um málefni verksmiðjunnar á Akranesi. Á hann mætti hátt á annað hundrað manns. Þar fluttu erindi bæjarstjóri Akraness, fulltrúi Hollustuverndar og tæknisérfræðingur Sementsverksmiðjunnar. Fulltrúi iðnrn. sem fer með eignarhald verksmiðjunnar var beðinn um að mæta og greina frá sjónarmiðum eigandans sem er ríkið, en því var hafnað bæði af hálfu ráðuneytisstjóra iðnrn. og síðar einnig af sjálfum hæstv. iðnrh.

Fram komu á fundinum, herra forseti, verulega þungar áhyggjur af framtíð verksmiðjunnar, sérstaklega vegna þess að hafinn væri stórfelldur innflutningur á sementi á vegum dansks stórfyrirtækis sem seldi sement á meintu undirverði. Að óbreyttu mundi sementsframleiðsla á Íslandi leggjast af. Ég óttast, herra forseti, að meðferð þeirra mála sem við lögðum fram í þinginu gangi of hægt, það taki of langan tíma að grípa til aðgerða í eðlilegri meðferð þingsins á málinu.

Ég vil líka vísa til tómlætis og viðbragða af hálfu iðnrh. sem virðast vera með þeim hætti að hæstv. ráðherra hafi ekki áhuga á málefnum verksmiðjunnar, leysa úr vanda hennar eða styrkja stöðu hennar. Þess vegna, herra forseti, vildi ég vekja athygli Alþingis á þessu máli. Ég tel að þetta sé afar brýnt og þess vegna skora ég á ráðherra að beitt verði öllum ráðum til að hraða meðferð málsins á Alþingi því að ekki er sýnilegt að hæstv. iðnrh. ætli að hafa döngun í sér til að grípa til nauðsynlegra aðgerða til að tryggja áframhaldandi rekstur verksmiðjunnar.