Stjórnsýslulög

Fimmtudaginn 14. nóvember 2002, kl. 11:26:15 (1482)

2002-11-14 11:26:15# 128. lþ. 30.1 fundur 348. mál: #A stjórnsýslulög# (rafræn stjórnsýsla) frv., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 128. lþ.

[11:26]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka svarið og er alveg sammála því að okkur ber að stíga skref inn í nútímann og þetta er hluti af honum. Ég tek líka undir að meiri hraði hefur verið á þessum málum öllum heldur en nokkurt okkar óraði fyrir þegar fyrstu skrefin voru tekin og ég ætla ekkert að setja út á það að menn fari ekki nógu hratt. En ég er alveg sannfærð um að þegar menn fara að vinna með þessum hætti, þá mun það auðvitað gerast eins og hæstv. forsrh. bendir á að einu ráðuneyti mun ekki líðast það að vera einhvers staðar aftur í forneskjunni þegar önnur hafa stigið inn í nútímann og þess vegna býst ég við að þó að þetta sé heimilt fyrst um sinn, þá muni það ganga eftir að hvert stig taki við af öðru.

Ég held hins vegar að mjög þurfi að skoða það í nefndinni hvort einhverjir annmarkar eru á slíku heimildarákvæði, hvort ekki sé hugsanlegt að upp komi einhver vandræðagangur út af því að einhver ráðuneyti verði framar öðrum og sérstaklega kannski varðandi kynningarmálin í sambandi við þetta. Ég minnist þess þegar stjórnsýslulögin voru sett sem voru líka tímamótalög og við studdum heils hugar, að það var mjög mikilvægt hvernig þau voru kynnt og að réttur sem fólki var fenginn með þeim og áherslur þeirra var mjög vel kynnt fyrir fólki. Það verður vandasamara núna þegar á að kynna ákveðinn rétt og vinnulag sem ekki verður alls staðar á ferðinni. Ég sé á þessu ákveðna annmarka en ég skil vel að fara verði varlega og ég hvet líka til þess að farið verði varlega þegar svona grundvallarbreytingar eru gerðar.