Fyrirtækjaskrá

Fimmtudaginn 14. nóvember 2002, kl. 11:46:26 (1485)

2002-11-14 11:46:26# 128. lþ. 30.2 fundur 351. mál: #A fyrirtækjaskrá# (heildarlög) frv., 350. mál: #A hlutafélög, einkahlutafélög, samvinnufélög og sjálfseignarstofnanir# (færsla skráningar, breyting ýmissa laga) frv., forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 128. lþ.

[11:46]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég vek athygli á því varðandi símaskrá sem nefnd er að hver borgari hefur bæði rétt á og tækifæri til að láta taka sig út úr slíkum skrám. Engar upplýsingar verða gefnar um viðkomandi ef hann kýs svo. Það er ekki verið að gefa upplýsingar á móti vilja manna.

Ég vek einnig athygli á því að í sumum löndum banna menn að halda heildstæða þjóðskrá. Því geta fylgt miklir annmarkar, t.d. í Bandaríkjunum þar sem menn verða þá til að mynda að skrá sig með drjúgum fyrirvara fyrir hverjar einustu kosningar til að geta kosið, reyndar skrá sig sem demókrata, repúblikana eða óháða, sem hljómar undarlega í okkar eyrum, vegna þess að skráningin er síðan tengd prófkjörum viðkomandi flokka. Þeir eru að vísu ekki skyldugir til að kjósa þá flokka sem þeir skrá sig í en þeir eru skráðir undir slíkum heitum sem mönnum finnst afar sérstakt, a.m.k. hjá okkur. En það er nauðsynlegt vegna þess að ekki er leyft að halda heildstæða þjóðskrá. Þegar við segjum Ameríkumönnum að ef menn skrái sig ekki eða gefi ekki upp flutning sinn sé auglýst reglubundið hjá okkur að það verði menn að gera fyrir tiltekinn tíma að viðlögðum sektum eða fangelsi. Þá halda þeir að við rekum harðara kerfi en í fornum alræðisríkjum. Þetta finnst okkur hins vegar sjálfsagt þrátt fyrir að dálítið hart sé að gengið.

Varðandi fyrirtækjaskrána hefur hún verið starfrækt í samvinnu við skattinn. Þess vegna þótti eðlilegt að flytja hana þangað.

Varðandi þjóðskrána liggur það ekki eins í augum uppi, það er alveg rétt hjá hv. þingmanni, en þar er verið að vinna að því máli. Helst stendur til að sú skrá verði flutt undir dómsmrn.